Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 92. fundur,  30. mars 2023.

matvælastefna til ársins 2040.

915. mál
[16:00]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil sömuleiðis þakka hæstv. matvælaráðherra fyrir framlagningu þingsályktunartillögu um matvælastefnu hér á Íslandi og að sama skapi, rétt eins og með þann dagskrárlið sem var hér á undan, vil ég fagna sérstaklega framlagningu hennar.

Ég vil reyndar nálgast mitt innlegg í þessa umræðu út frá því sem ég myndi hvetja nefndina til að láta sig varða. Það eru kannski ekkert mjög flóknir eða margir þættir. Fyrst vil ég bara segja um matvælastefnuna að við þurfum ekki síst að ræða matvælastefnu út frá því að hún er bara risastórt lýðheilsumál, nálgast hana hreinlega nánast sem heilbrigðismál, liggur mér við að segja. Það er ekkert óskaplega langt síðan við sem töluðum fyrir fæðuöryggi og matvælaöryggi vorum pínulítið sproksett. Það var ekki fyrr en Karl G. Kristinsson prófessor bætist í hóp þeirra sem láta sig þessi mál varða — t.d. varðandi sýklalyfjaónæmi, ónæmar bakteríur, sem hv. þingmaður nefndi í sinni ræðu hér á undan — þegar við fjölluðum sérstaklega um það í þinginu að augu fólks opnast fyrir því að það skiptir ofboðslega miklu máli í hvaða umhverfi við erum að framleiða matinn og hvaða aðferðum við beitum til þess. Alveg frá þeim tíma að við þurfum að gefa því gaum hvað t.d. sýklalyfjanotkun í matvælaframleiðslu eða landbúnaði getur haft mikil áhrif á kostnað í heilbrigðiskerfinu hefur sá snjóbolti umræðunnar raunverulega bara stækkað. Og nú eru fleiri þættir að koma inn með vaxandi þunga. Þess vegna myndi ég segja: Matvælastefna á ekki síst, af því að við nefndum það áðan í umræðu um landbúnaðarstefnu, að tala við aðrar stefnur og í þessu tilfelli lýðheilsumál og heilbrigðisstefnu. Mig myndi langa til að hv. atvinnuveganefnd spreytti sig á að setja þá umræðu svolítið í samhengi.

Síðan aðeins um matvælaiðnaðinn. Ein stærsta iðngrein á Íslandi er matvælaiðnaður og hún er af alls konar gerðum eða hefur alls konar birtingarmyndir þar sem verið er að vinna úr matvælum. Hvort sem við flytjum hráefnin inn — þau eru nú aðallega framleidd hér á landi — þá vil ég horfa á stöðu íslensks matvælaiðnaðar og þá þekkingu sem hann þarf að byggja á; menntun starfsfólksins sem hann þarf að treysta á, sem er ágætlega tíundað í þessari þingsályktunartillögu, t.d. bara framboð af fagmenntuðu fólki í fisk og kjöti og öðrum framleiðslugreinum, ekki síður en bara bakarar og aðrir sem matvælaiðnaður þarf á að halda. Ég held að það sé vel gert, eins og tæpt er á í framlögðu skjali, að ræða svolítið um menntun á þessu stigi.

Ég vil síðan einfalda myndina með því að segja: Við eigum hérna, og ég held að við deilum ekki um það, framúrskarandi iðnað í fiski, sem sagt fiskvinnsluiðnað. Hann hefur verið öðrum atvinnugreinum á Íslandi fremri í því að leiða nýsköpunarstarf í landinu. Það er ofboðsleg nýsköpun og gróska í úrvinnslu fisksins. En síðan horfum við til landbúnaðarins í þeim efnum og þá erum við bara allt í einu dottin aftur fyrir 1980 vil ég segja. Ég ætla þó að gera þá undantekningu að þar hefur mjólkuriðnaðurinn verið á betri stað heldur en ég vil svona almennt dæma kjötiðnaðinn. En auðvitað er óeðlilegt að alhæfa með þessum hætti því að margar kjötvinnslur eru faglega sterkar. Frábær vara, ég ætla ekki að gera lítið úr því. Meginmálið er þetta: Mjólkuriðnaðurinn hefur haft ákveðið umhverfi til að þróast og þess vegna verið gefið súrefni til að takast á við að innleiða tækninýjungar og jafnvel sinna nýsköpun. En horfandi utan frá á mjólkuriðnaðinn vil ég segja að ég held að hann sé pínu að dragast aftur úr sambærilegum iðnaði í öðrum löndum. Varðandi kjötiðnaðinn sem slíkan verð ég bara að segja að ef við ætlum að láta markmiðin okkar framkallast í þessari matvælastefnu þá verðum við að taka mjög alvarlega umræðu um það í atvinnuveganefndinni í það minnsta eða láta endurspeglast í aðgerðum okkar, sem við byggjum síðan á í matvælastefnu og landbúnaðarstefnunni, hvernig við ætlum að koma fótunum undir sömu sóknarfæri í kjötgreinunum eins og fiskurinn býr við. Það verður verðugt verkefni.

Í þriðja lagi vil ég nefna rannsóknir. Af því að tæpt er á því í tillögunni, aðeins fjallað um rannsóknir, þá ætla ég að nefna mikilvægi t.d. hafrannsókna. Kannski er ég farinn að hljóma eins og biluð plata, ég held að ég haldi nánast ekki ræðu án þess að tala um mikilvægi hafrannsókna. Ég vil nálgast þetta ekki síst út frá íslenskum fiskiskipum — og þetta kom vel fram í samantekt Auðlindarinnar okkar. Ég vil þakka sérstaklega fyrir þann punkt sem þar er dreginn fram, hvernig við getum virkjað betur saman þessar hefðbundnu hafrannsóknir okkar, Hafrannsóknastofnun og síðan öll þau gögn og gagnagrunna sem okkar fiskiskip búa yfir. Þegar við tölum um rannsóknir í tengslum við matvælastefnu þá sé ég óskapleg sóknarfæri í því að við finnum okkur leið til að þræða þessa þætti betur saman, þ.e. þá sem eru úti á hafinu, þekkja hafið, leita að fiski, og þá sem eru síðan að mæla nytjastofna okkar og reyna að búa til okkar ráðgjöf. Og þá til viðbótar, hvort sem það er á hafi eða landi eða lofti, þurfum við að endurskoða og rýna betur stefnu okkar, hvernig við erum að mæla og meta ýmsa umhverfisþætti. Það getur skipt gríðarlegu máli ef við viljum ræða um framtíð matvæla og matvælastefnu og síðan heilnæmi matvæla til lengri tíma.

Bara að lokum um kornræktina þá vil ég, eins og ræðumaður hér á undan, hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson, segja að hún standi á ákveðnum tímamótum með tillögum hæstv. matvælaráðherra sem eru nú m.a. birtar í fjármálaáætlun og taka kannski undir það með þeim hætti að segja að við værum ekki að ræða um að efla kornrækt á Íslandi í dag ef við hefðum ekki haft öflugar rannsóknir og kynbætur í kornrækt. Ef ég á að finna eitthvað að ágætri skýrslu um kornrækt sem kom út — maður getur náttúrlega alltaf verið í einhverjum aðfinnslum út og suður — þá skulum við ekki gleyma þeim þætti að í gegnum árin og á árunum 1990–2010 var gríðarlega öflugt kynbótastarf og rannsóknarstarf í jarðrækt og tilraunir í kornrækt sem grundvallar að það sé orðið raunhæft að efla kornrækt sem búgrein á Íslandi sem hefur ekki verið í mjög langan tíma. Áður var kornrækt allnokkur á Íslandi og vísa ég nú til nafns á ákveðnu sveitarfélagi í þeim efnum, Akranesi, sem endurspeglar í raun og veru það að hér voru áður akrar og kornrækt allumsvifamikil. Þá bjuggum við reyndar við annað veðurfar og annað loftslag sem síðan er að koma og er aftur að færa okkur þessi tækifæri.

Ég er bara að reyna að ná utan um það að við þurfum í umræðu um matvælastefnu að huga sérstaklega að rannsóknum á öllum sviðum og eflingu rannsókna. Ég fagna sérstaklega áherslu á kynbótaverkefni í jarðræktinni því að þau eru í raun og veru lykillinn að því að við komumst áfram. Við höfum verið að efla samkeppnissjóði og ég hef gagnrýnt það áður í ræðum hér á Alþingi að vöktun umhverfisþátta og síðan rannsóknir sem eru kannski forsenda nýsköpunar og sóknar eru svolítið sitthvor hluturinn. Það þarf þolinmótt langtímafjármagn til að stunda langtímagrunnrannsóknir. Við höfum lagt áherslu á að setja fjármagn í samkeppnissjóði sem eru einhvers konar sprettátaksverkefni. Ég held að farsæld okkar í að framkalla þessa matvælastefnu byggi ekki síst á því að við finnum eitthvert jafnvægi í því að fjármagna rannsóknir á milli þess að horfa til langs tíma og skemmri tíma. Auðvitað eru átakspeningarnir, eða peningarnir sem hugsaðir eru til samkeppninnar, að gera óskaplega stóra hluti en þá megum við aldrei gleyma grunninum sem við byggjum á.

En í öllum aðalatriðum held ég að það sé alveg tímabært að við ræðum matvælastefnu og samþykkjum hana og gerum hana þannig úr garði héðan frá Alþingi en við verðum líka að muna hvað stendur á bak við slíka matvælastefnu. Það eru fyrst og fremst rannsóknir, þekking, menntun og slíkir þættir.

Að svo komnu máli þá ætla ég bara að leggja áherslu á það meðan ég sit í hv. atvinnuveganefnd að við látum umfjöllun um þessar tvær stefnur nokkurn veginn fylgjast að. Þær eru í eðli sínu aðskildar en eru mjög háðar hvor annarri í allri umræðu og framkvæmd.