132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Skipun ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneyti.

[15:16]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Úrskurður umboðsmanns Alþingis varðandi ráðningu ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytinu er alvarleg áminning til stjórnsýslunnar, til allra ráðherra núverandi ríkisstjórnar og einnig til Alþingis. Umboðsmaður Alþingis er eftirlitsmaður fólksins í landinu varðandi framkvæmd stjórnsýslunnar í ráðuneytunum og eins varðandi framkvæmd og lagasetningu á Alþingi. Það er því mikilvægt að Alþingi taki úrskurði eða ábendingar umboðsmanns Alþingis alvarlega, að úrskurði umboðsmanns sé fylgt eftir og að úrskurðir umboðsmanns Alþingis séu teknir upp af hinu háa Alþingi á sérstökum fundum utan þingsalar með umboðsmanni, ráðherrum og þingmönnum, til að fara yfir úrskurðina og læra af þeim.

Það er algjörlega óviðunandi og óásættanlegt að hæstv. ráðherrar geti brugðist við úrskurði umboðsmanns Alþingis á þann hátt sem þeir hafa gert, eins og hæstv. forsætisráðherra gerði á dögunum, að þetta væri jú eitthvað til að læra af, en engin önnur viðbrögð. Hvernig eigum við svo að fylgja úrskurðinum eftir?

Innan stjórnar Alþingis höfum við engan farveg til að fylgja eftir úrskurði umboðsmannsins (Forseti hringir.) og ég tel að við verðum að bæta úr því.