132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[21:17]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svo öllu sé til haga haldið í þessari umræðu hafa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs verið óþreyttir við að halda því fram að verið sé að einkavæða raforkukerfið og þetta sé fyrsta skrefið í þá átt að selja raforkukerfi landsmanna.

Nú hefur sá sem hér stendur sagt það vera sjónarmið sitt að mjög mikilvægt sé að við Íslendingar stöndum vörð um sameiginlega orkuauðlind okkar og að meirihlutaeign okkar sé á þeim orkuauðlindum. Það er ásetningur minn á löggjafarþinginu. Ég hefði talið að það ætti að vera fagnaðarefni hjá hv. þingmanni að við skulum þó tala í takt hvað það varðar.

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann að lokum. Er það ekki í raun og veru alveg sama hvort við höfum fyrirtækið Rarik hf. eða Rafmagnsveitur ríkisins, þ.e. ef þeir aðilar komast að sem vilja selja þá eign, hvort það sé ekki jafnauðvelt eftir sem áður sama hvert formið verður? (Forseti hringir.)