133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[11:21]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf):

Frú forseti. Ég geri grein fyrir áliti minni hluta menntamálanefndar um það frumvarp sem hér liggur fyrir um sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Það er ljóst, eins og komið hefur fram í umræðunum, að forsvarsmenn beggja þessara skóla hafa lagt áherslu á það ferli sem hér er verið að samþykkja enda hefur verið unnið að þessu til nokkuð langs tíma. Hugmyndirnar eru hins vegar algjörlega sjálfsprottnar í stofnununum sjálfum. Það er afar mikilvægt að því sé haldið til haga að þessar hugmyndir sem eiga sér mjög langan aðdraganda eru ættaðar úr skólunum sjálfum. Um nokkurra ára skeið hafa átt sér stað samræður á milli forsvarsmanna skólanna og nú hefur verið fjallað um þessa hugmynd á öllum póstum hjá stofnununum og allir eru sammála því að í þetta ferli verði farið. Með frumvarpinu má segja að verið sé að fella þetta í lagalegt ferli og gert ráð fyrir því að sameiningin fari formlega fram hinn 1. júlí 2008.

Aðferðafræðin sem valin er er sú að geyma ákvarðanir um allt sem getur valdið deilum eða átök geta orðið um, þær ákvarðanir verði bara teknar þegar að því kemur hverju sinni. Það er virt aðferðafræði en hin aðferðin hefði getað verið sú að byrja á að ákveða formið og með hvaða hætti þetta yrði allt saman gert. En þetta er sú leið sem ákveðin hefur verið sem þýðir um leið að í raun er hægt að fara til baka ef slíkir erfiðleikar koma upp að þeir verði ekki leystir. Á þessu stigi er þó engin ástæða til að ætla slíkt. Þetta er mjög langt ferli því að stofnanirnar eru stórar og viðamiklar og það kom m.a. fram hjá gestum að það gæti verið allt að 10–15 ára ferli sem tæki að ljúka málinu og láta skólana falla algjörlega saman.

Eins og ég sagði áðan á eftir að taka ansi margar ákvarðanir, m.a. á eftir að taka ákvörðun um það með hvaða hætti skipulagi Háskóla Íslands verður breytt. Það þýðir að til þingsins þarf aftur að koma frumvarp þar sem tekið verður á þeim hlutum. Þá má segja að í raun og veru komi þetta mál aftur til þingsins og þá verður hægt að gera stöðumat á því og meta tillögurnar um breytt skipulag Háskóla Íslands í samræmi við það. Þær hugmyndir sem þar eru uppi eru á þann veg að skipta skólunum upp í nokkra skóla eða einingar eftir mismunandi sviðum en það er óþarfi á þessu stigi að ræða það sérstaklega. Þar er gert ráð fyrir að ákveðið svið sinni uppeldis- og kennslufræðum, væntanlega í sérstakri einingu. Svo er spurning um útfærslu á því hvernig þessir hlutir verða tengdir saman.

Það er rétt að geta þess að svo virðist vera, og kom fram á fundum með gestum nefndarinnar, sem áherslumunur sé á milli starfsfólks skólanna varðandi skipulag kennaranámsins. Það hefur sínar sögulegu skýringar vegna þess að stuðst hefur verið við hvort sitt líkanið, ef við getum orðað það svo, við skipulag kennaranáms annars vegar í Háskóla Íslands, eftir svokölluðu raðnámslíkani, og hins vegar í Kennaraháskóla Íslands þar sem námið hefur alla tíð verið skipulagt út frá samþættu líkani.

Raðnámslíkanið gerir ráð fyrir því að nemendur öðlist fyrst þekkingu í tiltekinni fræðigrein en síðan bætist uppeldisgreinar við. Samþætta líkanið gerir hins vegar ráð fyrir að uppeldisgreinar séu samþættar öðrum fræðigreinum. Þetta er auðvitað hvort sitt módelið og það kom fram hjá fulltrúum starfsmanna Kennaraháskólans að þeir leggja mikið upp úr því að það fyrirkomulag haldist. Í raun og veru kom fram hjá fleirum mikilvægi þess að bæði líkönin væru til staðar þannig að kennaranámið yrði ekki einsleitara en það er í dag, heldur væri fjölbreytileikanum haldið áfram. Ég held að það sé alveg ljóst að hægt er að færa rök fyrir hvoru tveggja.

Við í minni hlutanum gerum þannig séð ekkert upp á milli í þessum efnum en teljum afar brýnt að um þetta fari fram viðamikil og fagleg umræða. Hér er auðvitað verið að leggja grundvöllinn að skipulagi kennaranáms til framtíðar. Það er afar mikilvægt að við þessa sameiningu verði kennaranámið sem slíkt eflt. Það blasir við að fjölmargir möguleikar eru til þess að efla kennaranámið og eins að setja meiri þunga á uppeldismenntunina í hinum sameiginlega skóla. Það má ekki gleyma því að ýmsar hefðir í kennslu eru mjög misjafnar innan þessara stofnana og það má ekki gera lítið úr því að háskólakennsla er líka mikilvæg sem fræðigrein, þ.e. kennslan sem slík en ekki bara einstök fræði. Það er ábyggilegt að þar má ekki síður bæta úr en á öðrum skólastigum.

Frú forseti. Fjölmörg atriði önnur þarf að athuga rækilega eins og fram kemur í ýmsum þeirra umsagna sem borist hafa um frumvarpið, þar á meðal um stöðu kennaramenntunar í alþjóðlegu samhengi. Þá má ekki gleyma því að Bandalag íslenskra námsmanna vakti sérstaka athygli á því að eðlilegt væri að náið samráð yrði haft við stúdenta við hina væntanlegu sameiningu. Við í minni hlutanum tökum sérstaklega undir þá kröfu stúdentanna.

Með frumvarpinu er aðeins stigið fyrsta skrefið í sameiningu skólanna tveggja og endurskipulagningu kennaramenntunar í landinu. Við í minni hlutanum treystum því að vinnubrögð forustumanna og starfsliðs skólanna verði vönduð og lýðræðisleg í framhaldinu og leggjum þess vegna til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir nefndarálitið rita, auk mín, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, Mörður Árnason og Kolbrún Halldórsdóttir.