133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

667. mál
[15:45]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég kem bara til að lýsa stuðningi við frumvarpið. Tók það reyndar fram við 1. umr. málsins að ég teldi að það væri meira en tímabært að þetta mál kæmi hér til umræðu og afgreiðslu í hv. Alþingi. Í raun og veru er saga útflöggunar kaupskipa meira en 25 ára gömul, aldarfjóðungsgömul, og lengi hefur verið talað um að eitthvað þyrfti að gera til að bregðast við þeirri þróun sem hér hefur átt sér stað síðastliðin 25 ár og hefur að lokum leitt til þess að ekkert íslenskt kaupskip er skráð undir íslenskum fána. Nú er verið að reyna að snúa þessari þróun við og er loksins komið fram frumvarp, fylgifrumvarp þessa frumvarps um skattalegt hagræði sem fjármálaráðherra hafa mælt hér fyrir sem er í raun og veru forsenda þess að menn sjái sér hag í því að flagga þessum skipum heim á nýjan leik.

Ég vænti þess, hæstv. forseti, að við séum að stíga það skref að skipafélögin sjái sér á nýjan leik hag í því að flagga skipunum heim aftur og þó að vissulega kunni að verða einhver tregða í því þá er það nú svo í atvinnugrein eins og siglingum að þar er mikil þróun og margt að breytast, menn eru að skipta um skip, kaupa og selja o.s.frv. Ég vænti þess því að innan tiltölulega fárra ára verði aftur skráð kaupskip á Íslandi sem eru í siglingum að og frá landinu og þjónusti þjóðina eins og verið hefur og þarf að vera um ókomna framtíð fyrir eyþjóð að geta treyst á að þar séu eðlilegir og öruggir flutningar.

Ég tel það fagnaðarefni að þetta mál nái nú fram að ganga og vænti þess að það verði til þess að hér fjölgi störfum og þekking aukist á nýjan leik og það verði aftur eftirsóknarvert fyrir íslenska sjómenn að afla sér menntunar til siglinga á farskipum.