136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

endurúthlutun aflaheimilda.

[14:28]
Horfa

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu endurúthlutun veiðiheimilda. Ég þakka fyrir þessa umræðu um leið og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir, að mínu mati, mjög gott innlegg hér í sínu svari.

Það er nú ekki nýtt að menn ræði um að það sé nauðsynlegt að skapa sátt um sjávarútveginn. Sú umræða hefur lengi farið fram. Ég held að hins vegar verði því miður seint hægt að tala um fullkomna sátt um þessa grein meðan það þarf að takmarka veiðar og stýra veiðum með einhverjum hætti eins og við reyndar gerum nú með kvótakerfinu.

Ég leyfi mér að efast um það þrátt fyrir að hér hafi verið farið yfir ýmsar tölur úr skoðanakönnunum að það verði meiri sátt um veiðikerfi sjávarútvegsins eftir innköllun og endurúthlutun veiðiheimilda. Ég held að þeir sem tali fyrir slíkri leið verði að útskýra hvernig eigi að fara að því, hvernig eigi að nálgast það verkefni og hvernig eigi að endurúthluta veiðiheimildum. Ég sakna þess mjög að það hafi ekki komið fram hér í þessari umræðu hvernig menn sjá það fyrir sér.

Ég held líka að ef menn ætla út í svona aðgerð þá sé það ekki til þess fallið að auðvelda sjávarútveginum starfsemi sína um þessar mundir og vitna ég meðal annars í það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra hér áðan. Við verðum að hafa heildarhagsmuni þjóðarinnar í huga sérstaklega við þær aðstæður sem við búum við í dag.

Ég tek undir það sem hér kom fram að við þurfum að ræða þessi mál af mikilli alvöru að sjálfsögðu og menn þurfa að koma fram með þau sjónarmið sem að baki liggja svona umræðu og útskýra hvernig svona lagað ætti að fara fram.

Eitt er alveg ljóst og við hljótum öll að gera okkur grein fyrir, að svona kerfisbreyting fjölgar ekki fiskunum í sjónum. Það er nokkuð ljóst þannig að það er alla vega eitthvað sem menn geta verið sammála um.