136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

kortlagning vega og slóða á hálendinu.

344. mál
[15:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Sú er hér stendur setti af stað vinnu árið 2004 við að kortleggja vegi og slóða á hálendinu í samstarfi við hagsmunasamtök. Síðan eru liðin fimm ár. Nú er nefnd að störfum sem í eru umhverfisráðuneytið, fulltrúar frá Umhverfisstofnun, Landmælingum Íslands og Vegagerðinni.

Eftir mikinn þrýsting hafa samtök útivistarfélaga fengið áheyrnarfulltrúa í umrædda nefnd en ég tel ástæðu til að spyrja hæstv. umhverfisráðherra af hverju þessi samtök hafi ekki fullgilda aðkomu að nefndinni. Ég vil draga fram áherslur hæstv. ráðherra á Árósasamninginn þar sem dregið er fram að hagsmunasamtök eigi að koma fyrr að málum og mjög nauðsynlegt er að það eigi við í þessu tilviki.

Ég vil einnig draga fram að það eru ákveðin hagsmunasamtök sem þurfa að koma að þessum málum fyrir utan Samút. Ég ætla að nefna hvað þetta eru stór samtök og byggi það á munnlegum upplýsingum. Samkvæmt upplýsingum Sveinbjörns Halldórssonar, formanns Ferðaklúbbsins 4×4, eru meðlimir í þeim klúbbi 4.000. Samkvæmt upplýsingum Hrafnkels Sigtryggssonar, formanns Vélhjólaíþróttaklúbbs Íslands VÍK, eru 1.100 manns í þeim klúbbi og samkvæmt upplýsingum Jakobs Þórs Guðbjartssonar, formanns Slóðavina, sem er nýjasti klúbburinn, eru 300 manns í honum. Þetta er einungis ársgamall klúbbur en mjög mikil gróska er í starfsemi þessara hópa. Svona má lengi telja. Ég vil líka nefna hestamenn og aðra sem hafa hagsmuna að gæta varðandi vegi og slóða, sérstaklega á hálendinu en líka á láglendi.

Það eru 7.000–8.000 torfæruhjól í landinu. Þetta er stór og mikilvægur hagsmunahópur (Gripið fram í.) 70.000 hestar er kallað hérna fram í líka. Ég hef áhyggjur af því hvað lítið samráð er við þessa hópa. Þetta eru hópar sem hafa verið til fyrirmyndar í umgengni við náttúruna og klúbbarnir leggja mjög mikla áherslu á áróður gegn utanvegaakstri og nærgætni við náttúruna. Því þarf að ná þeim nær því ferli að ákveða hvað á að vera opið og hvað á að vera lokað. Þetta eru hópar sem vilja það.

Ég vil jafnframt nefna mælingar sem Landmælingar Íslands hafa gert í samstarfi við Ferðaklúbbinn 4×4. Þar hefur Jón G. Snæland haldið utan um málið, svokallaður Slóðríkur, sem þekkir meira til slóða á hálendinu en margur annar. Mér skilst að mælingarnar séu mjög langt komnar og núna þarf að fara í gang sterkara ferli stjórnsýslulega við það að ákveða hvað á að vera opið og hvað á að vera lokað. Mælingarnar eru ekki lengur að tefja það ferli.

Ég skora því á hæstv. umhverfisráðherra, sem ég veit að vill gjarnan fá grasrótarsamtök og hagsmunasamtök fyrr að ferlinu, að ákveða að Samút fái fullgilda aðild að nefndinni sem er að vinna við þessi mál og að miklu meira samráð verði við þá hópa sem ég hef tilgreint í ræðu minni.