140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fullseint, það hefði auðvitað mátt gera þetta fyrr að mínu mati, hv. þingmaður, en það stóð til að gera þessar breytingar á árinu 2010 og eins og ég rakti áðan í framsögu minni komst meiri hluti allsherjarnefndar þá að þeirri niðurstöðu að það þyrfti að undirbúa betur stofnun auðlinda- og umhverfisráðuneytis annars vegar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis hins vegar vegna athugasemda og ábendinga sem bárust frá hagsmunaaðilum. Þetta hefur nú verið gert, ég vil því segja: Nei, þetta er ekki fullseint. Ég held að það sé tímabært og ég held að eðlilegt sé að sumarið verði notað til að fara í frekari undirbúning, m.a. þá kostnaðargreiningu sem hv. þingmaður spurði um. Hún liggur ekki fyrir að öðru leyti en því að þarna er þetta stóra bil, 100 millj. kr., sem meiri hluti nefndarinnar leggur áherslu á að verði skoðað miklum mun betur áður en ákvörðun verður tekin um hvaða leið verður valin í húsnæðismálum, því að það er það sem skiptir máli.

Því miður næ ég ekki að svara öllum spurningum hv. þingmanns í þessu andsvari.