140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:00]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en undir það ritar auk mín hv. þm. Ólöf Nordal.

Ég ætla að fara nokkuð hratt yfir sögu enda er hægt að staldra við afskaplega marga þætti í þessu máli. Ég mun þannig láta ógert að fjalla sérstaklega um atriði sem eru ekki beinlínis í þessari þingsályktunartillögu heldur koma til sjálfstæðrar umfjöllunar síðar, eins og hugmyndir um hagráð og þjóðhagsstofnun og slíkar stofnanir sem eru í sjálfu sér áhugaverðar vangaveltur og fullt tilefni til að taka til skoðunar en ekki verið að taka ákvörðun um þær í þessu máli. Ég mun því ekki dvelja lengur við það í þessari ræðu.

Sama er að segja um forsögu málsins sem snýr að því hvort sjálfdæmi ríkisstjórnar eigi að vera á hverjum tíma um það hvernig hún skipi ráðuneytum eða hvort það eigi að fara í gegnum þingið. Ákveðin niðurstaða varð í september sl. þegar meiri hlutinn á þingi samþykkti að hér eftir yrði sá háttur hafður á að ríkisstjórnin hefði í rauninni valdið til að hrinda í framkvæmd ráðuneytabreytingum en þyrfti engu að síður að bera þær tillögur undir Alþingi.

Ég ætla að sleppa því að rifja upp hvernig þetta var en verð þó að nefna að tekist var á um málið á sínum tíma eins og hv. þingmenn muna. Við í stjórnarandstöðunni töldum að hér væri um að ræða ákvarðanir sem væru það mikilvægar að eðlilegt teldist að þingið kæmi að þeim. Við töldum eðlilegast að þetta væri gert með lögum en sögðum sem svo: Það er þó skárra að málið komi til afgreiðslu í formi þingsályktunar en að það komi alls ekki til þingsins — þannig að þessi forsaga sé rifjuð upp.

Þetta nefni ég, hæstv. forseti, vegna þess að í upphafi nefndarálits okkar gerum við töluverðar athugasemdir við málsmeðferðina í þinginu. Ég ætla ekki að rekja það nákvæmlega, við gerum það í því nefndaráliti sem liggur fyrir, en við teljum að um sé að ræða snöggsoðna málsmeðferð. Þó að vissulega hafi verið vel unnið á þeim fundum sem nefndin að sönnu hélt um málið þá voru þeir fáir, á skömmum tíma og við töldum að vantaði umsagnir sem hefðu þurft að vera og að eðlilegt væri að gefa nefndinni og gestum tækifæri til að ræða málin ítarlegar en kostur gafst í síðustu viku.

Bara til þess að segja það þá er það rétt sem fram kom í máli hv. framsögumanns málsins, Álfheiðar Ingadóttur, að gert er ráð fyrir því að þetta og þessi mál, þingsályktunartillögur um breytingar á ráðuneytum, komi til umræðu og afgreiðslu þegar í stað. Engu að síður var gert ráð fyrir því í störfum þeirrar nefndar, allsherjarnefndar, sem hafði með málið að gera á sínum tíma að eðlileg þingleg meðferð færi fram. Ef ég man rétt er það staðfest í nefndaráliti þáverandi meiri hluta allsherjarnefndar. Og þó að ég sé alls ekki að ásaka meiri hlutann í nefndinni á neinn hátt um lögbrot eða að ganga gegn þingsköpum eða neitt slíkt þá finnst mér þetta ófullnægjandi meðferð, mér finnst þetta ekki góð þingleg meðferð og stend við þá skoðun. Hv. þingmaður sagði að málið hefði verið sett í forgang innan nefndarinnar og er allt gott um það að segja, en forgangur þarf ekki að þýða að málið sé klárað og afgreitt úr nefnd á þremur sólarhringum. Það þarf ekki að túlka það þannig, það er val að túlka það þannig.

Ég vildi líka nefna það sem við getum um í kafla í nefndarálitinu um málsmeðferðina, að það kom jafnvel skýrar fram en ella í yfirferð nefndarinnar hversu margir þræðir eru lausir í þessu máli. Það var undirstrikað, má segja, með fundum nefndarinnar að þau atriði sem lúta að verkaskiptingu ráðuneyta, hvar stofnanir eru vistaðar o.s.frv., eru öll mjög óljós enn þá. Að mínu mati hefði verið eðlilegt að þeir þættir væru undir í þessu máli þannig að þingmenn, þegar þeir taka afstöðu til þessa máls, ættu kost á að leggja mat á það hvaða afleiðingar breytingarnar mundu hafa. Breytingarnar snúast um nöfn ráðuneyta og stofnun nýrra ráðuneyta og niðurlagningu annarra, en það er bara beinagrindin, það vantar allt kjöt á beinin. Málsmeðferðin í nefndinni skýrði það ekki nema að litlu leyti og er ljóst sýnist mér á öllum gögnum málsins sem liggja fyrir og öllum þeim umræðum sem farið hafa fram um það að fyrst og fremst er gert ráð fyrir því að sú vinna, þ.e. útfærslan, staðsetning einstakra verkefna, skipting verkefna milli mismunandi ráðuneyta og þess háttar, muni eiga sér stað í kjölfar þess að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt þannig að að miklu leyti erum við þingmenn, þegar við tökum afstöðu til þessa máls, að skrifa upp á óútfylltan víxil, a.m.k. þeir þingmenn sem ætla sér að samþykkja þetta. Það er með öðrum orðum gert ráð fyrir hvað ráðuneytin eiga að heita en um alla útfærslu og nánara fyrirkomulag er vísað til framtíðar. Það finnst mér galli því að forsenda þess að þingmenn geti tekið upplýsta ákvörðun og afstöðu til þeirra breytinga sem lagðar eru til er auðvitað sú að þeir sjái um leið til hvaða breytinga ný ráðuneyti muni leiða, og þar vantar svo sannarlega miklu fyllri mynd.

Ég ætla að nálgast innihald tillögunnar út frá þremur forsendum. Í fyrsta lagi er það hugmyndin um að atvinnuvegir heyri undir eitt ráðuneyti, í annan stað flutningur auðlindanýtingar til umhverfisráðuneytis og í þriðja lagi tilfærsla efnahagsmála til fjármálaráðuneytis. Þetta eru breytingar sem í sjálfu sér kalla allar á spurningar en svolítið mismunandi spurningar í hverju tilviki fyrir sig. Ég álít því að hentugt sé að greina nokkuð á milli í þeim efnum.

Það er rétt sem fram hefur komið að hugmyndir um að atvinnuvegirnir heyri undir eitt ráðuneyti eru alls ekki nýjar af nálinni og eins og greint hefur verið frá er þess meðal annars getið í stefnuyfirlýsingu eða stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að stefnt skuli að því. Allt gott er um það að segja. Það kom líka fram í frumvarpi sem forsætisráðherra lagði fram árið 2010 að stefnt skyldi að þessari breytingu samhliða því að sameina átti dómsmála- og samgönguráðuneyti í innanríkisráðuneyti og heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti í velferðarráðuneyti. Eins og hv. framsögumaður meiri hlutans greindi frá féll þáverandi meiri hluti allsherjarnefndar frá þessari tillögu, þó að hinar gengju í gegn, á þeirri forsendu að nauðsynlegt væri að eiga nánara samráð við hagsmunaaðila um þessar breytingar.

Það kemur ekki fram í nefndaráliti meiri hlutans en auðvitað munum við sem vorum á þingi eftir því að á þessum tíma var sú staða uppi að óvíst var hvort meiri hluti væri fyrir þessari breytingu í þinginu vegna þess að ákveðinn hluti þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lýsti mjög eindreginni andstöðu við breytinguna. Það voru því, getum við sagt, ekki bara faglegar ástæður þar að baki heldur líka sá pólitíski veruleiki sem uppi var sumarið 2010. Sennilega hefði þessi breyting ekki náð í gegn í atkvæðagreiðslu í þinginu þó að við vitum auðvitað ekki hvernig Hreyfingin eða aðrir hefðu brugðist við í slíkri atkvæðagreiðslu.

Það er rétt sem fram hefur komið að í kjölfar þess að þessi breyting lenti í strandi sumarið 2010 var sett af stað greiningarvinna á vegum forsætisráðuneytisins á kostum og göllum þessara tillagna. Ég vildi bara geta þess hér í þinginu að mér hefði þótt eðlilegt að sú greinargerð hefði komið fram fyrr og jafnvel verið fylgiskjal með þingsályktunartillögunni þegar hún var lögð fram. Það var með nokkuð óskýrum hætti vísað til hennar í umræðunni í þingsal og við fengum síðan aðgang að henni þegar nefndin tók til starfa í síðustu viku. Það hefði auðvitað verið betra fyrir okkur og hugsanlega fyrir hagsmunaaðila, sérfræðinga og aðra sem áhuga hafa á málinu utan þingsins að geta áttað sig á þessari greiningarskýrslu fyrir fram og hefði þá verið hægt bregðast við henni. Eftir því sem fram kemur í möppunni frægu sem vísað hefur verið til þá var þessari greiningarvinnu á ráðuneytunum skilað í apríl 2011, en hún varð hins vegar ekki opinber fyrr en hún var birt í nefnd og sennilega á vef þingsins á þriðjudaginn í síðustu viku. Allir sem láta sig þessi mál varða hefðu örugglega kosið að eiga aðgang að þessum gögnum fyrr.

Ég vil geta þess að það er rakið í þessari greiningu, sem um margt er ágæt og ekkert út á þá vinnu sem ráðgjafarfyrirtækið hefur unnið fyrir forsætisráðuneytið að þessu leyti að setja, og kemur skýrt fram að um er að ræða breytingar sem afar skiptar skoðanir eru um. Raktar eru nokkuð heiðarlega sýnist mér röksemdir bæði með og á móti þessum breytingum. Eins er nokkur greinargerð um afstöðu hagsmunaaðila til einstakra tillagna í þessu sambandi. Allt er þetta mjög gott, en við skulum vera nokkuð opinská með það að þessi greiningarvinna og sú afstaða sem fram kemur til einstakra tillagna í þessu sambandi hefði alveg eins getað leitt til einhverrar annarrar niðurstöðu en þeirrar sem varð. Það hefði með alveg jafngóðum rökum mátt rökstyðja einhverja aðra niðurstöðu en þá sem hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ríkisstjórn hafa komist að þegar þau móta þessa tillögu.

Ég get fallist á það með þeim sem um þetta hafa fjallað að bæði kostir og gallar geta fylgt sameiningu atvinnuvegaráðuneyta í eitt. Eins og rakið hefur verið geta kostir falist í aukinni hagkvæmni með stærri einingum, betri samhæfingu og einföldun innan stjórnkerfisins og samræmdari stefnumörkun varðandi regluverk og uppbyggingu hinna ýmsu atvinnugreina. Þetta er ekkert út lausu lofti gripið, þetta eru alveg nothæfar röksemdir. En rökin eru ekki bara í eina átt, það eru líka rök á móti eins og fram hefur komið.

Meðal þess sem telja má sem galla við þá breytingu að sameina atvinnuvegaráðuneytin í eitt er í fyrsta lagi að hætt er við að boðleiðir milli einstakra atvinnugreina og stjórnvalda lengist, ekki síst þannig að það teygist á tengslum milli þeirra sem starfa á vettvangi í viðkomandi atvinnugrein og þeirra sem fara með hið pólitíska vald. Ég held raunar, hæstv. forseti, að það sé nánast óhjákvæmilegt að þetta gerist nái þessar tillögur fram að ganga.

Þetta leiðir til þess að möguleikar ráðherra til að hafa yfirsýn og öðlast þekkingu á viðkomandi málaflokkum minnka eftir því sem ráðuneytin stækka og verkefnin verða fjölbreyttari. Ráðherra sem nú fer til dæmis með sjávarútvegs- og landbúnaðarmál bætir eftir breytinguna við sig iðnaðarmálum, ferðamálum, nýsköpunarmálum og málefnum fjármálamarkaðarins. Það má segja að mikið ofurmenni þurfi til að gegna þessum embættum ef viðkomandi á að hafa sómasamlega yfirsýn og tök á öllum þessum málum. Hættan verður sú að ráðherrann fjarlægist einstök svið og þess í stað verði áhrif og völd embættismanna á viðkomandi sviðum meiri, en sá er munurinn á stöðu stjórnmálamanna og embættismanna að stjórnmálamenn, hinir pólitísku ráðherrar, bera pólitíska ábyrgð gagnvart þingi og þjóð en það gera embættismenn ekki — þeir bera auðvitað að lögum embættislega ábyrgð en hún er allt annars eðlis. Ég verð að játa að ég hef áhyggjur af þessu og ég held að þetta séu ótvírætt gallar.

Ég hef efasemdir um að tiltölulega ómótaðar hugmyndir um að skipta málefnasviðum ráðuneyta á fleiri en einn ráðherra leysi vanda sem þennan. Ég held að það geti skapað alveg ný vandamál innan ráðuneyta sem snúist þá um það hver fari með hvaða málaflokk, hver eigi að ráða ef ágreiningur verður o.s.frv. Ég held að það sé ekki endilega leiðin, hæstv. forseti.

Ég vildi í þessu sambandi nefna ákveðnar hættur að því leyti að við sameiningu þessara ráðuneyta dragi úr sérþekkingu á einstökum málefnasviðum innan Stjórnarráðsins. Ég held að við verðum að horfast í augu við það að atvinnugreinarnar búa að mörgu leyti við mjög mismunandi lagaumhverfi og hlutur stjórnvalda í sambandi við afskipti, ákvarðanatöku, reglusetningu, eftirlit og annað er mjög mismunandi eftir því hvort við erum að tala um iðnað, sjávarútveg, landbúnað eða málefni fjármálamarkaðarins. Það er mjög ólík aðkoma í þessum efnum og þess vegna er ákveðin hætta á því að um töluvert erfiða samhæfingu verði að ræða. Þegar talað er um að sumar atvinnugreinar telji sig eiga betri aðgang að stjórnkerfinu en aðrar og þetta séu viðbrögð við því þá óttast ég að niðurstaðan verði ekki sú að það batni hjá öllum heldur versni ástandið hjá þeim sem hafa það þokkalegt en batni ekkert hjá hinum sem eru afskiptir eins og staðan er núna. Ég held að það sé galli.

Hagsmunasamtök í atvinnulífinu hafa jafnframt bent á að breytingin muni óhjákvæmilega leiða til þess að þeim fækki einfaldlega við ríkisstjórnarborðið sem eru í störfum sínum í beinum tengslum við atvinnulífið. Ég held að það sé í sjálfu sér neikvæð afleiðing.

Við í minni hlutanum lýsum því að þegar við horfum til allra þessara þátta þá séu í okkar augum ókostirnir við sameininguna þyngri á metunum en kostirnir. Við áréttum að ekki eigi að ráðast í breytingar af þessu tagi nema sæmileg sátt náist um þær, að kostirnir séu augljósir og að til staðar séu raunveruleg vandamál sem ætlunin sé að leysa. Við teljum að þau skilyrði séu ekki fyrir hendi á þessu sviði, að ekki sé sátt um þessa breytingu og að kostirnir séu ekki augljósir umfram ókostina. Við spyrjum hreinlega eins og reyndar margir sem hafa tjáð sig um þetta úr atvinnulífinu: Hvaða vandamál er verið að leysa með því að gera þessa breytingu? Er ekki verið að breyta fyrirkomulagi sem á margan hátt hefur reynst ágætlega?

Ef við horfum til þeirra ráðuneyta sem undir heyra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og eftir atvikum málefna fjármálamarkaðarins, sem á síðari stigum er bætt við sem aukaafurð við atvinnuvegaráðuneyti, þá sé ég ekki og við í minni hlutanum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að til staðar séu þau vandamál sem þessi tillaga leysi. Þess vegna segjum við: Við skulum stíga varlega til jarðar, við skulum ekki rjúka til breytinga, sérstaklega ef við horfum til þeirrar stöðu sem grundvallaratvinnuvegirnir sumir hverjir eru í um þessar mundir, þegar farið er í gegnum mjög umfangsmiklar tillögur um breytingar á starfsumhverfi svo sem í sjávarútvegi og að einhverju leyti hvað varðar stóriðju og auðlindanýtingu á því sviði. Það er verið að fara í gegnum mjög stórar breytingar og spurning hvort þá sé rétti tíminn til að fara í svona skipulagsbreytingu.

Sama má segja um aðildarumsóknina að Evrópusambandinu. Ég deili áhyggjum með þeim sem segja: Eigum við að veikja stjórnsýsluna á sviði sjávarútvegs- og landbúnaðarmála akkúrat á þeim tíma þegar við eigum í erfiðustu viðræðunum á sviði Evrópumála um landbúnað og sjávarútveg? Eru þetta ekki viðkvæmustu sviðin? Er þetta rétti tíminn til að veikja, eins og ég óttast, stjórnsýsluna á þessum sviðum? Að því leyti eru þessar tillögur varasamar þó að, eins og ég sagði fyrr í máli mínu, ákveðnir kostir og gallar geti verið á því að sameina atvinnuvegi í eitt ráðuneyti. Við teljum að ókostirnir vegi þyngra og við teljum ótvírætt að þetta sé bandvitlaus tími til að fara í slíkar breytingar.

Ég vil líka nefna breytinguna sem varðar flutning auðlindanýtingar til umhverfisráðuneytis. Þar er um að ræða breytingu sem ég hef ekki síður og jafnvel enn meiri áhyggjur af en þeirri sem ég nefndi hér fyrr. Fyrst vil ég nefna, og við gerum það í nefndaráliti okkar, að það er afar óljóst svo ekki sé meira sagt hvaða þættir sem snerta auðlindirnar eiga að færast yfir til umhverfisráðuneytis — það er afar óljóst. Almenn orð um að tryggja sjálfbæra þróun og eitthvað svoleiðis veitir okkur mjög litla ef nokkra leiðsögn um það hvernig þessar tillögur verða útfærðar. Talað er um að færa mikilvæga þætti varðandi auðlindanýtingu til umhverfisráðuneytis en við sjáum ekki enn á spilin. Við vitum ekki hvað felst í þessum tillögum. Við vitum ekki hvar stofnanirnar sem sjá um þessi mál munu lenda. Við vitum ekki hvernig verkaskiptingin verður milli ráðuneytanna í sambandi við ákvarðanatöku og annað þess háttar. Ég verð að játa að eftir nokkurra daga umfjöllun í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er ég eiginlega engu nær um það hvernig þetta verður útfært og hygg að sama eigi við um marga aðra þingmenn. Af þeirri ástæðu tel ég að þessi breyting eigi ekki rétt á sér, a.m.k. ekki núna.

Síðan er það almennt sjónarmið að það geti verið afar tvíbent, svo ekki sé meira sagt, að færa auðlindanýtingu og vernd auðlinda undir sama ráðuneyti. Það eru ekki bara kostir við þá breytingu. Það getur verið ókostur því að eins og fyrirkomulagið sem við þekkjum er þá er ákveðin togstreita í stjórnkerfinu að vera annars vegar með atvinnuvegaráðuneyti, eitt eða fleiri, sem er fyrst og fremst með hina hagnýtu nýtingu auðlindarinnar í huga, og hins vegar annað ráðuneyti, sérstakt ráðuneyti, sem einkum hefur verkefni á sviði verndunar. Þetta skapar ákveðna togstreitu innan kerfisins milli nýtingarsjónarmiða og verndarsjónarmiða. Satt að segja held ég að það sé hollt að þessi togstreita sé til staðar. Ég hef áhyggjur af því, og við lýsum því í nefndaráliti okkar, að með því að færa auðlindamálin með einhverjum óskilgreindum hætti til umhverfisráðuneytis að hluta til að því er virðist, svo virðist vera sem bæði ráðuneytin, atvinnuvegaráðuneyti og umhverfisráðuneyti, eigi að vera með auðlindanýtingu á sínum snærum, þá verði verndarsjónarmiðin þyngri á metunum og jafnvægið raskist. Þetta er sjónarmið sem fram hefur komið af hálfu margra hagsmunasamtaka í atvinnulífinu og ég tel rétt að veita því sjónarmiði athygli. Við þurfum að nýta auðlindir til að lifa í þessu landi. Við þurfum líka að standa vörð um raunveruleg verðmæti í náttúrunni og ég held að núverandi fyrirkomulag tryggi ákveðið jafnvægi í þessum efnum sem ég held að muni raskast með þessari breytingu.

Í þriðja lagi ætla ég að nefna tilfærslu efnahagsmála til fjármálaráðuneytis. Eins og fram kom í andsvörum og svörum okkar hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur áðan á hún sé töluvert annan aðdraganda en sú breyting sem ég hef þegar rætt. Hún var ekki í stjórnarsáttmála, hún var ekki í frumvarpinu sem var til umræðu í þinginu 2010. Á þessu sviði hefur greiningarvinna takmarkast við skýrslu einnar nefndar og samráð ekki verið haft við hagsmunaaðila svo að vitað sé. Þessi breyting er því miklu síðar til komin og hefur ekki fengið sömu skoðun og sú sem ég nefndi hér á undan, þetta er allt saman á miklu meiri hraðferð ef við getum orðað það svo.

Satt að segja mátti skilja orð ráðherra ríkisstjórnarinnar og hv. stjórnarliða í þinginu svo að lengst af væru þeir býsna sáttir og ánægðir með stofnun efnahags- og viðskiptaráðuneytis í þeirri mynd sem gert var vorið 2009. Þá voru einmitt ákveðnir efnahagsþættir færðir frá fjármálaráðuneyti og forsætisráðuneyti til þáverandi viðskiptaráðuneytis og það fékk nýtt hlutverk.

Það var tiltölulega seint sem maður áttaði sig á því að jafnvel væru uppi einhverjar hugmyndir um að breyta þessu aftur. Lausafregnir í fjölmiðlum urðu til þess að við, nokkrir þingmenn, fórum að spyrja út í þetta í þinginu í byrjun desember og 5. desember var ekki á hæstv. forsætisráðherra að heyra að neinar hugmyndir af þessu tagi væru á borðinu og ekki á henni að skilja að neinar tillögur væru uppi í þessa átt. Tveim dögum síðar var hæstv. fjármálaráðherra spurður svipaðra spurninga og voru svör hans nokkuð önnur og mátti skilja hann svo að þetta væri hlutur sem hann hefði alla vega velt fyrir sér þó að orð hans væru ekki mjög skýr í þeim efnum.

Hitt málið, atvinnuvegaráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti, hefur verið að gerjast allt þetta kjörtímabil en þetta mál kemur hins vegar upp að því er virðist í desember eða janúar. Það fyrsta skriflega sem ég sé um þetta í gögnum málsins er að vikið er að þessari breytingu í einni setningu í minnisblaði frá 10. janúar sl. vegna stofnunar ráðherranefndar um stjórnkerfisbreytingar.

Um svipað leyti virðist starfshópur Gylfa Magnússonar, Sigurðar Snævarrs og Sigurðar H. Helgasonar vera kallaður til sögunnar og honum falið að vinna þetta á nokkrum vikum. Ég ætla að taka það fram að mér finnst greinargerð þessa starfshóps á margan hátt góð og skynsamleg. Mér finnst margt ágætt í henni og hún gæti verið grunnur að góðri umræðu um þessi mál. En mér finnst ekki standast að líta á það plagg sem nægilegan undirbúning að þeirri ráðuneytabreytingu sem hér er mælt fyrir um. Mér finnst ekki standast að þessi vinna, svo ágæt sem hún er, sé eini grunnurinn að þeirri breytingu sem er lögð til varðandi efnahagsmál og fjármálaráðuneytið, ekki síst vegna þess að niðurstaða skýrslu eða greiningar starfshópsins sem fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, efnahagsráðunautur forsætisráðherra og síðan ráðgjafi hjá Stjórnarháttum sátu í er alls ekkert ótvíræð í þessu sambandi.

Í niðurstöðu þeirra má sjá að þeir eru þeirrar skoðunar að núverandi fyrirkomulag efnahags- og viðskiptaráðuneytis, þ.e. það fyrirkomulag sem komið var á vorið 2009, sé ófullnægjandi, að ráðuneytið geti ekki starfað áfram í óbreyttri mynd. Þeir leggja eiginlega til tvo möguleika. Annar möguleikinn er sá að efla efnahags- og viðskiptaráðuneytið eins og það er og hinn er sá að færa ákveðinn hluta verkefna til fjármálaráðuneytis. Eina greiningin sem liggur til grundvallar þessari hugmynd í þingsályktunartillögunni og eina vinnan sem átt hefur sér stað í aðdragandanum að því er frá þessari nefnd sem nefnir þetta vissulega sem möguleika en ekki sem eina möguleikann. Ekki er að sjá að hinn möguleikinn, þ.e. að efnahags- og viðskiptaráðuneyti í núverandi mynd verði eflt, (Forseti hringir.) hafi verið skoðaður.

Hæstv. forseti. Ég kemst ekki lengra í þessari ræðu og vísa því til nefndarálits okkar hv. þm. Ólafar Nordal, en niðurstaða okkar er sem sagt sú að við leggjumst gegn því að þetta mál nái fram að ganga og teljum að þrátt fyrir að skipulag ráðuneyta hljóti alltaf að vera til skoðunar sé rétt (Forseti hringir.) að fara af varfærni í það og við leggjumst gegn þeirri breytingu sem hér liggur fyrir.