144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[15:32]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um verndarsvæði í byggð. Frumvarp þetta hefur verið alllengi til vinnslu í forsætisráðuneytinu og á þeim tíma hefur verið haft samráð við ýmsa sem því máli tengjast, ekki síst Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Minjastofnun og fleiri og tillit verið tekið til ábendinga og athugasemda þeirra.

Frumvarpi byggir að miklu leyti á sams konar breskum lögum frá árinu 1990, en sambærileg lög hafa verið í gildi áratugum saman í ýmsum nágrannalöndum okkar og raunar líklega í flestum vestrænum löndum. Segja má að með þessu sé verið að færa íslenska löggjöf nær því sem tíðkast víðast hvar annars staðar í þeim löndum sem við berum okkur saman við og reynst hefur vel þar.

Tilefni lagasetningarinnar er nauðsyn þess að mælt sé með skýrum hætti í lögum um heimild til að vernda byggðarheildir eða hverfi. Með slíkri lagasetningu er lagður grundvöllur að því að menningarsögulegt og listrænt gildi einstakra bæjarhluta sé tryggt, en slíkt getur haft ýmiss önnur jákvæð áhrif, ekki hvað síst fyrir íbúa þessara svæða, enda snýst vernd umhverfis, hvort sem er manngerðs umhverfis eða náttúrunnar, um að vernda fólk í leiðinni. Við sjáum það m.a. í Bretlandi að ásókn íbúa í að fá slíka skilgreiningu er töluvert mikil því að þegar hverfi hafa fengið slíka skilgreiningu hefur það orðið til þess að draga verulega úr óvissu um framvindu nánasta umhverfis fólks og um leið hækka verðmæti fasteigna því að fólk vill auðvitað hafa ákveðinn fyrirsjáanleika og öryggi í sínu nánasta umhverfi.

Í löggjöfinni er vissulega að finna ýmis ákvæði sem snerta vernd umhverfis, manngerðs og náttúrulegs umhverfis, og í lögum um menningarminjar er fjallað um friðlýsingu menningarminja. Þá er einnig að finna ákvæði í skipulagslögum sem mæla fyrir um skyldu til að setja í skipulagsáætlanir ákvæði um hverfisvernd ef þörf er talin á að vernda sérkenni eldri byggðar eða annarra menningarsögulegra minja án þess að um friðlýsingu sé að ræða samkvæmt lögum um menningarminjar. Þessi nálgun er þó eðlisólík þeirri nálgun á vernd sem lögð er til í frumvarpi þessu, þ.e. að skapa grundvöll til að tryggja heildstæða vernd menningarsögulegra og listrænna bæjarhluta.

Friðlýsing hefur frekar lotið að vernd einstakra húsa og hverfisvernd verið hluti af almennu skipulagsferli sveitarfélaga þar sem litið er til fleiri þátta en eingöngu verndar sögulegrar byggðar og oft reynst heldur lítið hald í slíkri skilgreiningu þegar á reynir. Þannig er ætlunin með frumvarpi þessu að gera slíkri vernd hærra undir höfði en svo að vera hluti af almennri skipulagsvinnu sveitarfélaga. Skapar það grundvöll til að gildi slíkrar verndar verði meira en ella.

Markmið frumvarpsins er hins vegar ekki að draga úr gildi friðlýsinga samkvæmt lögum um menningarminjar. Áfram verður miðað við að til friðlýsinga einstakra húsa og mannvirkja geti komið innan slíkra verndarsvæða.

Meginefni frumvarpsins mælir fyrir um skyldu sveitarfélaga til að meta á fjögurra ára fresti hvort innan marka þeirra sé byggð sem hafi slíkt gildi hvað varðveislu, svipmót og menningarsögu varðar að ástæða sé til að gera hana að verndarsvæði. Er þeim ætlað að gera tillögu til ráðherra sem tekur ákvörðun um að gera tiltekna byggð að verndarsvæði eftir umsögn Minjastofnunar. Mælir frumvarpið jafnframt fyrir um að sinni sveitarstjórnir ekki þeirri lagaskyldu að meta gildi byggða geti ráðherra falið Minjastofnun Íslands að leggja mat á verndargildið og hvort ástæða sé til að útbúa tillögu til ráðherra um að tekin verði ákvörðun um að stofna til verndarsvæðis.

Tilkoma slíkra verndarsvæða tryggir vernd og varðveislu byggðar sem hefur sögulegt gildi og leggur á herðar sveitarfélaga að tryggja varðveislugildi þeirra. Þannig verður bannað að rýra varðveislugildi verndarsvæða og leyfisskylt að bæta, rífa niður eða fjarlægja húseignir á verndarsvæðum. Þá er aðkoma almennings og hagsmunaaðila tryggð að slíkum ákvörðunum sveitarfélaga þar sem frumvarpið mælir fyrir um skyldu sveitarstjórna til að auglýsa fyrirhugaðar framkvæmdir og almenningi og hagsmunaaðilum veittur réttur til að koma sjónarmiðum og athugasemdum á framfæri. Jafnframt verður sveitarfélögum heimilt að láta vinna verk innan verndarsvæða að fengnu samþykki sem nauðsynleg eru til að tryggja verndargildi viðkomandi svæðis.

Til að tryggja enn frekar svipmót og heildarásýnd verndarsvæða mælir frumvarpið fyrir um heimild m.a. sveitarstjórna til að setja sér samþykktir um frekari vernd svipmóts byggðar en mælt er fyrir um í ákvörðun ráðherra og gera jafnframt tilteknar framkvæmdir leyfisskyldar. Þannig verður heimilt að setja samþykktir um formgerð húsa, afstöðu þeirra innbyrðis og rýmismyndun, stærðarhlutföll, byggingarstíl, litaáferð og efnisval ytra byrðis húsa, auk sambands byggðar og náttúrulegs umhverfis innan verndarsvæða.

Loks er ástæða til að geta þess að frumvarpið mælir fyrir um refsiábyrgð lögaðila sem telja verður nauðsynlegt vegna eðlis þessara mála, enda má búast við að í refsimálum reyni í mörgum tilfellum á athafnir sem lögaðilar standa fyrir fremur en einstaklingar.

Hæstv. forseti. Ég hef nú rakið helstu atriði frumvarpsins sem miðar, eins og áður segir, að því að mælt sé með skýrum hætti í lögum fyrir um heimild til að vernda byggðarheildir eða hverfi.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.