144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[15:39]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegu forseti. Mér finnst þetta svolítið skrýtið frumvarp. Í landinu eru fyrir skipulagslög þar sem er kveðið á um með mjög ítarlegum hætti hvernig taka á alls konar ákvarðanir um fyrirkomulag byggðar. Meðal annars er í skipulagslögum að finna hugtak sem heitir hverfisvernd og þar er kveðið á um hvernig vernda á sögulegar byggðir. Það er gert samkvæmt ákvæðum skipulagslaga á lýðræðislegan hátt og með kynningu sem þar er kveðið á um ákveðna þætti og þar fram eftir götunum. Í þessu frumvarpi er lagt til að sá þáttur skipulagslaganna verði tekinn úr skipulagslögum án sýnilegrar þarfar, vegna þess að ég veit ekki til þess að nokkur hafi kvartað yfir þessu fyrirkomulagi, og færður ráðherra til ákvörðunar. Í frumvarpinu er ekkert um kæruleiðir vegna ákvörðunar ráðherra eða nokkur skapaður hlutur, þar er engin lýðræðisleg aðkoma íbúanna, ekkert er kveðið á um það, þetta er bara tekið úr umhverfi skipulagslaga.

Ég deili áhuga hæstv. forsætisráðherra á vernd sögulegra byggða og vil að sjálfsögðu ekki að við eyðileggjum menningarlegar minjar, en ég vil að það mál sé í lýðræðislegri umgjörð. Frumvarpið virðist vera skrifað af sjónarhóli ráðherra sem hefur áhuga á verndun sögulegrar byggðar. En spurningin sem blasir við er: Hvað ef ráðherra hefur engan áhuga á vernd byggðar? Hér er kveðið á um að ráðherra eigi að ákveða þetta að fenginni tillögu sveitarstjórnar, þá er það á hans valdi, jafnvel fram hjá sveitarstjórn, að ákveða að vernda bæjarhluta. Hvað gerist ef ráðherra vill ekki vernda (Forseti hringir.) en sveitarstjórnin vill vernda? Hvað gerist þá samkvæmt þessu frumvarpi?