144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[18:03]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er megintónninn í Árósasamningnum að auka aðkomu almennings að ákvarðanatöku og upplýsingum á öllum stigum, þ.e. ekki í þeim anda sem var kannski viðvarandi lengst af, að almenningur kæmi ekki að málinu fyrr en svo seint að búið væri að taka ákvörðun — við könnumst öll við að það sé of seint að taka ákvörðun þegar er búið að samþykkja öll leyfi og almenningur stendur frammi fyrir því — heldur að opna ferlið miklu, miklu fyrr, að almenningur hafi möguleika á því að sjá ákvarðanatökuna fæðast, koma inn í hana á fyrri stigum. Kjarninn í Árósasamningnum snýst um að þar með muni koma til miklu færri álitamál á síðari stigum, vegna þess að þá hafi almenningur einfaldlega komið að málinu alla leið.

Þess vegna er það mín afstaða og ég held að aðalatriðið sé að almenningur hafi sem fjölbreyttastan möguleika á því að gera tillögur um vernd, hvort sem er til sveitarfélaga, Minjastofnunar eða jafnvel ráðherra eftir atvikum. En aðalatriðið er að almenningur sé mjög vel upplýstur um þann möguleika sinn. Það er það sem ég held að skorti oftar en ekki á hjá okkur þegar við erum að styrkja stöðu almennings í einhverju, ekki bara í þessum málum eða náttúruverndarmálum eða hverju, að almenningur sé ekki upplýstur um þær breytingar á lagaumhverfinu sem við erum að gera og jafnvel styrkingu á aðkomu þess hins sama almennings, sem kannski bara ypptir öxlum og hefur ekkert áttað sig á þeirri breytingu sem er að eiga sér stað.

Þetta er seinna andsvarið mitt við spurningum hv. þingmanns en ég vil vekja athygli á því, og kannski þarf að koma að því í annarri ræðu, að í 12. gr. er í 5. tölulið beinlínis verið að fella niður 5. mgr. 37. gr. um skipulagsmál og þar er orðið „hverfisskipulag“, (Forseti hringir.) sem er sérstakt hugtak sem kom inn í lögin þar og þjónar fyrst og fremst (Forseti hringir.) höfuðborgarsvæðinu, tekið út og það er hvergi annars staðar að finna í skipulagslögum. Ég held að það hljóti að vera handvömm að láta það gerast.