144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[19:43]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrir svörin. Ég hef beitt mér töluvert á sviði kjarnorkuafvopnunar í alþjóðastarfi, ég er meðlimur í PNND og töluvert mikil vinna hefur verið unnin hjá Alþjóðaþingmannasambandinu í tengslum við það. Á tveimur síðustu þingum þar hefur verið mikil umfjöllun um kjarnorkuvopn og kjarnorkuvopnaafvopnun. Ég er alveg sammála því að það er mjög mikilvægt að hafa skýra stefnu og eindregna og það má alveg skoða hvernig Nýsjálendingar höguðu sínum málum, þeir hafa líka verið mjög virkir í PNND.

Ég velti fyrir mér: Af hverju geta þeir gert það sem þeir gera en ekki við varðandi skýra stefnu um hvað megi vera á ferð í kringum þeirra hafsvæði? Það sem ég hef gríðarlega miklar áhyggjur af er það hvar við erum í heiminum. Ef slys yrði út af kjarnorkuvopnum á okkar svæði þá velti ég fyrir mér hvernig við gætum brugðist við slíkri vá, hvort gert sé ráð fyrir því.

Ég var að horfa á mjög merkilega heimildarmynd, sem heitir The man who saved the world, sem fjallar um ákvörðun eins yfirmanns í rússneska hernum um að bregðast ekki við því sem leit út fyrir að vera árás en var tölvuvilla fyrir margt löngu. Það þarf svo lítið að bregða út af til þess að gríðarlega mikið slys geti orðið. Þess vegna hef ég miklar áhyggjur af því að við skulum samt heimila, út af alþjóðasamningum, að vopn af þessu tagi fari í gegnum okkar svæði. Er eitthvað sem við getum gert til að breyta því?