144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[20:04]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef litið þannig á að slíkt ráð yrði fyrst og fremst öryggisventill þannig að fólk væri búið að gera sér grein fyrir því að ef upp kæmi einhver ógn hvað við ætluðum þá að gera, að til væri einhver áætlun og hún ætti þá náttúrlega að vera öllum kunn. Ég geri ekki ráð fyrir að slíkt öryggisráð mundi starfa fyrir opnum tjöldum, en ég meina, við megum líka passa okkur á því að vera ekki alltaf of hrædd við að vinna hlutina. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það að varnarmál eða þjóðaröryggisráð eða eitthvað slíkt getur falið í sér hættur, en við verðum líka að líta á það út frá því að það getur verið gott fyrir okkur að hafa slíkt ef eitthvað kemur fyrir. Og við verðum bara að vera á tánum og setja slíku batteríi þær reglur að þar verði ekki einhver ósómi.

Það er einmitt það sem ég er líka að segja að við ætlum að vera herlaus þjóð. Það er alveg grunnatriði. En við getum hins vegar ekki litið fram hjá því ef til dæmis verður sjóslys hérna fyrir utan eða við Grænlandsstrendur, þá eru það herir sem koma frá nágrannaþjóðunum sem við mundum vinna með. Og okkar stofnanir verða að geta unnið með þeim líka. En þær mega ekki breytast í heri, alls ekki, en þetta er mikil áskorun. Það er mjög mikil áskorun að vera lítil herlaus þjóð. En við ætlum að vera það áfram og þá getum við ekki sagt: Þá ætlum við ekki að hafa þjóðaröryggisráð eða þá þarf ekki að vinna einhver verkefni. Það verður að vinna verkefnin. Og okkar áskorun er að gera það þannig að þessar borgaralegu stofnanir verði áfram (Forseti hringir.) borgaralegar og breytist ekki í heri.