145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

verkefni ríkisstjórnarinnar.

[11:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að þurfa að rifja það upp með hv. þingmanni að viðkomandi sat í stjórn 2007 til ársins 2013, lengst af og oft sem ráðherra eða forsvarsmaður síns flokks. Á þeim tíma hélt útrás íslensku bankanna áfram. Haldið var áfram með þeim hætti sem við sjáum nú að er fordæmalaust. Ég sagði fyrr í dag að við yrðum að taka á því með öllum tiltækum ráðum. Ég hef ekki heyrt hv. þingmann koma hér og styðja það bréf sem núverandi formaður Samfylkingarinnar sendi út til allra flokksmanna og sagði að hefðu verið mistök af ríkisstjórninni frá 2009–2013 að ganga fram með þeim hætti gegn almenningi í landinu eins og gert var, hvort sem var í Icesave eða gera kröfur um að borga óreiðuskuldir einkabanka til þess að viðhalda bankakerfinu. (Gripið fram í.) Ég hef ekki heyrt (Gripið fram í.) hv. þingmann tala þannig.

Þegar hv. þingmaður kemur hér upp og segir að það þurfi kosningar strax vegna þess að það skipti ekki máli hverjir fylgi eftir stórum og mikilvægum málum, það sé bara áframhald á því sem gert hafi verið á síðasta kjörtímabili, þá skal ég líka rifja það upp með hv. þingmanni, þótt ég vildi gjarnan að umræðan hér í dag væri með öðrum hætti, að síðasta ríkisstjórn gleymdi því að það eru til þrotabú bankanna í því verki, hún lagði ekki á skatt á þá, treysti sér ekki til þess, sagði við almenning í landinu: Þið eigið að greiða óreiðuskuldirnar. (Gripið fram í: Af hverju gerðuð þið ekki Vigdísi að …?) Við erum núna að vinna áfram á grundvelli þeirra stóru mála … Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, þú kemst örugglega að einhvern tímann og það væri kannski áhugavert ef þú mundir líka koma upp og tala um bréf núverandi formanns Samfylkingarinnar og þá skoðun sem hann setur fram um að ríkisstjórnin hafi (Gripið fram í.) gert mistök. (Forseti hringir.) Ef við getum tekið málefnalega umræðu um framtíðina skulum við gera það, en við skulum gera það með réttum hætti.