145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

hagsmunaárekstrar.

[11:39]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Frá því hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra settist fyrst á þing árið 2003 og allt til ársloka 2008 lifði hann í vissum skilningi tvöföldu lífi. Annars vegar var hann áhrifamikill stjórnarþingmaður og hins vegar stórtækur þátttakandi í viðskiptalífinu. Hann var formaður allsherjarnefndar Alþingis á árunum 2003–2007 og í raun má segja að hæstv. ráðherra hafi verið gangandi hagsmunaárekstur, árekstur á milli eigin viðskiptahagsmuna og hagsmuna sem hann var kjörinn til að gæta fyrir allan almenning. Telur hæstv. ráðherra þetta hafa verið eðlilegt?

Hæstv. ráðherra hefur líka játað að hafa staðið í tugmilljóna króna viðskiptum í gegnum félag í skattaskjóli á sama tíma og hann sat á Alþingi. Finnst honum eðlilegt að kjörinn fulltrúi geri það?

Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúi sagði af sér sem borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins vegna þess að Panama-skjölin leiddu í ljós að hann hafði líkt og fjármála- og efnahagsráðherra stundað fjárfestingar í gegnum félag í skattaskjóli.

Virðulegi forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra: Gerði ráðherrann mistök? Sagði ráðherrann ósatt? Telur ráðherrann að hann njóti trausts í samfélaginu? Ætlar hæstv. ráðherra að fylgja fordæmi flokksbróður síns og svara kalli þeirra 60–70% kjósenda sem samkvæmt skoðanakönnunum vantreysta hæstv. ráðherra Bjarna Benediktssyni og vilja að hann segi af sér? Ætlar hæstv. ráðherra að segja af sér?