145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

endurheimt trausts.

[11:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er ekki siður minn að vitna til funda sem menn eiga með forsvarsmönnum flokka (Gripið fram í.) en ég get hins vegar sagt að á þeim fundi komu ekki fram neinar hótanir. Þetta var samtal um þá fordæmalausu stöðu sem við erum í. Það var mjög mikilvægt að eiga þann fund og ég þakka fyrir hann. Eins og við höfum lýst bíða mjög mörg stór mál (BirgJ: Hvaða mál?) sem við þurfum að leysa, mál sem við teljum að séu mun stærri þjóðarhagsmunir fyrir en að ganga nú til kosninga. Ég býst við að margir geti verið sammála okkur um það.

Er nóg að gert? Það eru auðvitað fordæmalausar aðstæður og hlutir sem hafa gerst í þessari viku. Forsætisráðherra hefur stigið til hliðar, við höfum ákveðið að ljúka þeim mikilvægu verkefnum sem þarf að ljúka og ganga síðan til kosninga. Er það nóg? Auðvitað þurfum við að gera meira. Það er löng hefð fyrir því, við getum í það minnsta sagt að það sé í það minnsta síðan árið 2008 að hér brast traust til stjórnmála, stjórnmálamanna, stjórnvalda, fjármálakerfisins. Mikið verk er enn óunnið. Það sem nú blasir við er að við þurfum að taka á því með hvaða hætti það gerist.

Við höfum meðal annars fengið mikla athygli á liðnum árum fyrir frábæra vinnu sem við höfum unnið. Við erum með mikla athygli fjölmiðla heimsins á okkur í dag. Við eigum auðvitað að nýta það tækifæri til að sýna fram á hvernig við höfum annars vegar komist í þá stöðu að vera langt komin með endurreisn þjóðfélagsins eftir að það hafði hrunið til grunna og hins vegar hvernig við ætlum að taka á þessum málum af mikilli skilvirkni og festu.