149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

landlæknir og lýðheilsa og réttindi sjúklinga.

757. mál
[19:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, og lögum nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem lúta að því að skýra heimildir til kvörtunar til embættis landlæknis vegna heilbrigðisþjónustu, skýra málsmeðferð í slíkum málum og gera hana einfaldari þannig að hún falli betur að lagalegu hlutverki embættis landlæknis.

Frumvarpið var samið af starfshópi sem skipaður var til að taka til skoðunar ákvæði laganna um landlækni og lýðheilsu er varðar sérstaklega kvartanir vegna heilbrigðisþjónustu og koma með tillögur að því hvernig skýra megi þessar heimildir nánar. Embætti landlæknis gegnir mikilvægu hlutverki við eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum og eru embættinu veittar víðtækar heimildir og skyldur í lögum um landlækni og lýðheilsu til að sinna þessu hlutverki. Liður í því eftirliti er að sinna kvörtunum almennings vegna heilbrigðisþjónustu. Eins og fram kemur í frumvarpi því er varð að gildandi lögum felur skylda landlæknis til að sinna kvörtunum vegna heilbrigðisþjónustu í sér tiltekið eftirlit með heilbrigðisþjónustunni og er þannig þáttur í eftirlitshlutverki hans. Þannig geta kvartanir einstaklinga orðið tilefni til þess að landlæknir beiti heimildum sínum samkvæmt II. og III. kafla laganna, t.d. með því að beina tilmælum um úrbætur til rekstraraðila og í framhaldinu stöðva rekstur ef ekki er farið að tilmælum hans. Í III. kafla er fjallað um eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum og veita lögin landlækni heimildir í ákveðnum tilvikum til að beita tilteknum úrræðum, svo sem áminningu eða sviptingu starfsleyfis, til að tryggja að heilbrigðisþjónusta uppfylli þær kröfur sem landlæknir setur á hverjum tíma um gæði og öryggi.

Virðulegur forseti. Með umræddu frumvarpi eru lagðar til breytingar á 12. gr. laganna en ákvæðið fjallar um heimildir til kvörtunar til landlæknis vegna heilbrigðisþjónustu. Í núgildandi ákvæði 12. gr. kemur fram nánari útfærsla á skyldu landlæknis til að sinna kvörtunum almennings samkvæmt 4. gr. laganna. Ákvæðið hefur verið talið óljóst, erfitt í framkvæmd og ekki nægilega árangursríkt til að ná markmiðum þess um að stuðla að gæða- og öryggisumbótum. Reynslan hefur verið sú að oft og tíðum er kvörtunarheimildinni beitt sem tæki til að fá landlækni til að skera úr um mistök og/eða vanrækslu innan heilbrigðisþjónustunnar áður en einstaklingar taka ákvörðun um málshöfðun fyrir dómi. Álit landlæknis hefur því ekki þjónað því meginhlutverki að vera í þágu eftirlits með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum. Ekki þykir rétt að álitsgjöf með þessum hætti sé á hendi stofnunar eins og landlæknis, enda fellur það illa að hlutverki embættisins samkvæmt lögum. Var það eindregin niðurstaða starfshópsins að meðferð kvartana hjá embætti landlæknis lyti ekki að persónubundnum hagsmunum sjúklings heldur almannahagsmunum. Afgreiðsla embættis landlæknis í tengslum við kvörtunarmál væri því óviðkomandi slíkum málum og ekki á verksviði embættis landlæknis sem væri eftirlitsstofnun. Meðferð stofnunarinnar á málum er varða kvartanir vegna heilbrigðisþjónustu hefði heildstæðari tilgang og væri fyrst og fremst í þágu gæðaþróunar og öryggis innan heilbrigðisþjónustunnar almennt. Ákvæði 12. gr. laganna hefur einnig þótt óskýrt hvað varðar heimildir náinna aðstandenda til að kvarta vegna þjónustu sem látinn sjúklingur hefur hlotið. Er því lagt til í þessu frumvarpi að sérstaklega verði tekið fram í lögunum að nánum aðstandanda látins sjúklings sé heimilt að kvarta á grundvelli 12. gr. laganna.

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi er lögð til breyting á 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu sem hefur það markmið að einfalda og skýra málsmeðferð innan embættis landlæknis í kvörtunarmálum. Er frumvarpinu ætlað að hafa þau áhrif að embættinu verði gert auðveldara að greina þær kvartanir sem krefjast aðgerða af hálfu embættisins til að tryggja öryggi og gæði heilbrigðisþjónustunnar. Með frumvarpinu er lögð sérstök áhersla á tilgang og hlutverk embættis landlæknis sem eftirlitsstofnunar og breytingar á 12. gr. eru lagðar hér til með það að leiðarljósi.

Í 1. gr. frumvarpsins sem hér er til umfjöllunar er lagt til að 1. mgr. umrædds ákvæðis haldist efnislega nokkuð óbreytt en þó er skerpt á tilgangi ákvæðisins og hann tekinn sérstaklega fram. Í greininni kemur fram að landlæknir sinni kvörtunum og erindum vegna heilbrigðisþjónustu með það að markmiði að tryggja gæði og öryggi þjónustunnar. Þetta er sem sagt áréttað og ítrekað hér í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Þá er tekið fram að landlæknir leiðbeini þeim sem til hans leita um málefni heilbrigðisþjónustunnar. Er þetta gert til að undirstrika hlutverk embættis landlæknis í því að greina þær kvartanir og þau erindi sem honum berast og leiðbeina einstaklingum ef erindin eru þess eðlis að þau eigi frekar erindi við stofnunina sem um ræðir.

Í 2. og 3. mgr. greinarinnar er lagt til að tekinn sé af allur vafi um hverjum sé heimilt að kvarta til landlæknis vegna heilbrigðisþjónustu. Eru þetta auðvitað bæði sjúklingar og nánir aðstandendur látinna sjúklinga, svo sem maki, foreldri eða afkomandi. Ljóst er að aðrir aðilar, t.d. stofnanir eða einstaklingar, geta þrátt fyrir 2. mgr. sent landlækni erindi þar sem komið er á framfæri ábendingum eða athugasemdum um heilbrigðisþjónustuna. Landlæknir greinir slík mál og metur hvort tilefni er til að skoða þau frekar. Ef landlæknir metur mál þannig að aðhafast þurfi frekar til að tryggja gæði og öryggi í heilbrigðisþjónustu færu slík mál í farveg sem byggist á 13. og 7. gr. laganna en yrðu ekki meðhöndluð á grundvelli 12. gr. laganna, þeirrar sem hér er til umfjöllunar.

Í 4. mgr. frumvarps þess er hér um ræðir er fjallað um formsatriði tengd kvörtun, þ.e. að hún skuli vera skrifleg og að í henni skuli koma fram hvert sé tilefni hennar. Einnig er að finna í greininni tímamörk til að kvarta en lagt er til að tímafrestur gildandi laga verði styttur og að kvörtun þurfi að koma fram innan fimm ára frá því að atvik gerðist sem kvartað er undan. Þó er landlækni heimilt að taka kvörtun til meðferðar séu fimm ár liðin ef sérstakar ástæður mæla með því að hans mati að kvörtun sé tekin til meðferðar. Hefur tíu ára tímafrestur gildandi laga þótt of langur, fyrst og fremst vegna þess að erfitt getur verið að rannsaka mál sem eru löngu afstaðin. Einnig er þessi tímafrestur umtalsvert lengri en annars staðar á Norðurlöndum þar sem fresturinn er yfirleitt annaðhvort tvö ár eða fimm ár.

Í 5. mgr. er fjallað um meðferð kvörtunar innan embættis landlæknis en lagt er til að landlækni sé gert að fjalla um allar kvartanir og ljúka máli með því að sá sem kvartar sé upplýstur um niðurstöðu máls. Landlækni er gert að meta hvort upplýsa skuli þann aðila sem kvartað er undan eða hvort beita skuli ákvæðum II. eða III. kafla laganna til að tryggja gæði og öryggi þjónustunnar.

Í 6. mgr. er tekið fram að ábendingum um aðbúnað sjúklinga eða aðra aðstöðu innan stofnunar eða starfsstöðvar skuli beint til viðkomandi stofnunar. Er ákvæðið efnislega í samræmi við ákvæði 28. gr. laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, en lögð er til smávægileg breyting á því ákvæði til að tryggja samræmi.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum þessa frumvarps. Áhrif frumvarpsins eru fyrst og fremst þau að embætti landlæknis er gert kleift að sinna eftirlitshlutverki sínu í tengslum við meðferð kvörtunarmála á markvissari hátt. Málsmeðferð er einfölduð með frumvarpinu og atriði sem hafa valdið óvissu í túlkun skýrð frekar. Standa því vonir til þess, verði frumvarpið að lögum, að málsmeðferð í kvörtunarmálum verði skilvirkari og einfaldari. Enn fremur má ætla að málshraði muni aukast við umrædda breytingu. Ég leyfi mér því að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til velferðarnefndar og til 2. umr.