149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

landlæknir og lýðheilsa og réttindi sjúklinga.

757. mál
[20:00]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta yfirferð um þetta frumvarp til breytinga á tvennum lögum, mál sem er bæði þarft og mikilvægt. Mig langaði við þessa 1. umr. að fá nokkur atriði skýrð örlítið. Hæstv. ráðherra hefur þegar gert góða grein fyrir þessu fimm ára ákvæði. Annað sem mig langar aðeins að viðra er að landlæknir meti eftir atvikum hvort tilefni sé til að upplýsa þann aðila sem kvartað er undan. Ég spyr: Kann það í einhverjum tilvikum að stríða gegn ákvæðum í nýjum persónuverndarlögum? Ég vildi heyra sjónarmið hæstv. ráðherra í því.

Í öðru lagi langar mig að heyra aðeins ofan í ráðherra varðandi tilurð þessara breytinga og þessara laga. Starfshópur sem vann þessar breytingar er skipaður valinkunnu fagfólki úr ráðuneyti, frá Landspítala og embætti landlæknis. Kom á einhverjum tímapunkti upp hugmynd um að einhver fulltrúi notenda, sjúklingasamtaka eða einhverra tengdra hagsmunaaðila fengi setu við borðið?

Í þriðja lagi miðar frumvarpið að því að skerpa á hlutverki embættisins sem eftirlitsstofnunar, á gæðaþróun verkefna og öryggi í heilbrigðisþjónustu og eftirliti með starfsmönnum. Sjúklingum er auðvitað áfram heimilað að leita sér aðstoðar, einstaklingum. En hvað með stofnanir sem heyra jafnvel beint undir ráðuneyti hæstv. ráðherra? Verður ekki nauðsynlegt að huga að innviðum eða (Forseti hringir.) innviðakerfinu og eftirlitskerfinu í þessu sambandi?