149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[21:31]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni svarið og geri engan ágreining við hann í þessu. Ég vona að hann hafi ekki misskilið fyrirspurn mína. Það sem ég er að fara inn á er akkúrat að auðvitað geta eftirlitsaðilar verið leiðbeinandi í hlutverkum sínum. Til að nefna dæmi, ég nefndi áðan bankahrunið sem er fjær okkur í tíma, hefur Samgöngustofa eftirlitsskyldu með fyrirtækjum og rekstrarhæfi. Þar kemur inn í leiðbeinandi hlutverk en það má ekki ganga svo langt að þegar fyrirséð er að í óefni er komið sé kannski látið danka og þá sé það farið að bíta á þeim sem eru í heiðarlegri starfsemi, þeim sem eru að gera vel en líða fyrir það á meðan. Þegar svo er komið er verið að draga á lánardrottna, birgja, jafnvel launþega og kannski ríkissjóð í lokin vegna þess að eftirlitsskyldunni eins og hún lá fyrir var ekki sinnt. Það er það sem ég var að reyna að kalla eftir fremur en að brýna eftirlitsstofnanir til að ráðast á þá sem eru í rekstri og reyna að ná þeim. Ég er algjörlega mótfallinn því, svo það komi skýrt fram.