150. löggjafarþing — 93. fundur,  28. apr. 2020.

Matvælasjóður.

728. mál
[16:57]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum 728. mál, lagafrumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að setja á fót nýjan Matvælasjóð og sameina þar með Framleiðnisjóð landbúnaðarins og AVS-sjóðinn. Auk þess er lagt til að settar verði aukalega 500 millj. kr. til úthlutunar á þessu ári vegna viðbragða við Covid, sem er auðvitað mikið fagnaðarefni. Þetta er löngu tímabært og mikilvægt að sú aukning verði til framtíðar og tek ég undir það sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans hvað það varðar.

Eins og fram hefur komið hefur atvinnuveganefnd fjallað um málið og fengið á fund sinn nokkuð marga gesti og voru þeir nokkuð jákvæðir gagnvart málinu og þá náttúrlega einkum gagnvart þeirri aukningu sem hér hefur verið sett inn. Vissulega er auðvelt að halda því fram að hér sé verið að lauma málinu í gegn og að hér sé lítil Covid-tenging. En þó að svo sé held ég að hér sé um gott mál að ræða, þ.e. að efla og bæta stuðning við matvælaframleiðslu á Íslandi, ekki síst hvað varðar nýsköpun á því sviði. Íslensk matvælaframleiðsla hefur sérstöðu og tækifæri Íslendinga til að byggja á þeirri sérstöðu eru ekki síður mikil. Sérstaklega er mikilvægt að styðja vel við nýsköpun í matvælaframleiðslu og því mun þingflokkur Samfylkingarinnar styðja málið, en m.a. vegna þess að í nefndarálitinu er vísað í stefnu stjórnvalda, sem við vitum ekki enn hver verður, enda er matvælastefnan sem beðið hefur verið eftir ekki enn komin fram, taldi ég rétt að vera ekki með á nefndaráliti meiri hlutans. Sömuleiðis komu upp efasemdir um að það tækist að virkja nýjan stóran sjóð á svo stuttum tíma. Fram kom við vinnslu málsins að núverandi sjóðir gætu sannarlega auglýst strax en þó var bent á að e.t.v. væri það ekki heppilegt þar sem umsækjendur þyrftu líklega tíma til að undirbúa umsóknir sínar sem og að sumarið væri fram undan og því myndi úthlutun frestast fram á haust hvort eð er.

Herra forseti. Það eru gríðarlega mikil tækifæri í aukinni matvælaframleiðslu og höfum við þingmenn Samfylkingarinnar verið öflug í að halda á lofti mikilvægi þess að auka nýsköpun og auka verðmætasköpun í matvælaframleiðslu á Íslandi. Sérstaklega eru mikil tækifæri í ylrækt og framleiðslu ávaxta og grænmetis á Íslandi, auk þess til að mynda í ræktun á iðnaðarhampi. Það er fagnaðarefni að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi stigið ákveðið skref með því að opna á ræktun hans á Íslandi með reglugerðarbreytingu. Það eru mikil tækifæri í aukinni nýtingu lágvarma og mikil tækifæri í bættri nýtingu á hliðarstraumum orkuframleiðslu með jarðvarma, eins og ég hef ítrekað komið hér inn á áður. Einnig eru mikil tækifæri til að framleiða bæði meira magn og fjölbreyttari matvörur en við gerum í dag. Við ættum því ekki síst að horfa til þess að auka verulega framlög til rannsókna og nýsköpunar í slíkri framleiðslu sem og að líta til þess að jafna dreifikostnað raforku á landinu. Auk þess er mikilvægt að breyta kerfinu í heild þannig að það stuðli raunverulega að nýsköpun en niðurgreiði ekki eingöngu ákveðnar tegundir af grænmeti. Þannig þurfum við að lækka dreifikostnað óháð því hvort grænmetisbændur vilji framleiða kál eða tómata eða eitthvert líftækniprótein. Nú er einmitt verið að endurskoða stuðning við garðyrkjubændur innan búnaðarsamnings og ég hvet hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að vera sérstaklega djarfur þar og ganga enn lengra í aukningu í þá átt.

Herra forseti. Við þekkjum það vel hversu gríðarlegar framfarir hafa orðið á sviði sjávarútvegs á síðustu árum og eru mörg af okkar frambærilegustu fyrirtækjum í dag fyrirtæki sem byggja einmitt á þeirri þekkingaruppbyggingu sem hefur orðið til í sjávarútvegi á síðustu áratugum. Þannig hefur þróun og þekkingarsköpun orðið til þess að skapa raunverulega útflutningsvöru eins og sjá má á þeim verkefnum sem fyrirtæki eins og Marel og Skaginn 3X hafa tekið þátt í erlendis á síðustu árum. Þá hefur einnig orðið sú þróun að allur fiskurinn er nýttur og nánast engu hent, roðið til að mynda nýtt í sáraumbúðir og kollagenframleiðslu. Öflugur Matvælasjóður myndi gefa tækifæri til að styðja enn myndarlegar við þá þróun sem þar hefur átt sér stað á síðustu árum.

Það sama á við um landbúnað þó að þróunin sé e.t.v. komin skemmra á veg. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að mikil gróska er í íslenskum landbúnaði og við höfum spennandi dæmi um nýsköpun í framleiðslu. Ég get nefnt dæmi fyrir austan þar sem eru framleiddar bulsur og bopp — mér finnst svo gaman að segja þetta að reyni að segja þetta sem oftast hérna — á Karlsstöðum í Berufirði, bygg og korn og aðra framleiðslu hjá Móður jörð í Vallanesi á Fljótsdalshéraði og þá er ekki síst spennandi framleiðsla á wasabi-rótum í Fellabæ. Fjölmörg önnur dæmi eru auðvitað víðs vegar um landið, Arna mjólkurframleiðsla í Bolungarvík, Ljótu kartöflurnar og mætti lengi telja. Þá er auðvitað tækifæri í aukinni tæknivæðingu sömuleiðis og þar gæti reynslan úr sjávarútvegi einmitt nýst svo vel.

Herra forseti. Við hljótum einnig að vilja horfa til þess að styðja matvælaframleiðslu á Íslandi í ljósi loftslagsmála en með aukinni innanlandsframleiðslu minnkum við þörfina fyrir innflutt matvæli. Ljóst er að á næstu áratugum mun þörf heimsins fyrir matvæli margfaldast á sama tíma og aðstæður til matvælaframleiðslu verða æ erfiðari. Það eru því mikil tækifæri og mikilvægt fyrir Ísland að leggja sitt af mörkum. Þá eru sömuleiðis tækifæri fyrir íslenska matvælaframleiðslu að minnka kolefnisspor sitt enn meira og mikilvægt að stutt verði við það.

Herra forseti. Með auknum stuðningi við nýsköpun og framleiðslu sem og að gera frumkvöðlum kleift að þróa áfram sínar hugmyndir þannig að úr verði fjölbreyttari afurðir og aukin verðmætasköpun innan greinarinnar eru gríðarleg tækifæri í tengslum við matvælaframleiðslu á Íslandi. Með þeirri aukningu sem hér er lögð til ásamt stofnun þessa sjóðs vona ég svo sannarlega að við séum að stíga skref í þá átt. Vonandi verða fleiri stór skref stigin í þá átt í framhaldinu, bæði með áframhaldandi aukningu í sjóðinn en ekki síður með verkefnum um matvælastefnu sem vonandi mun einhvern tímann líta dagsins ljós.