150. löggjafarþing — 93. fundur,  28. apr. 2020.

Matvælasjóður.

728. mál
[17:06]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla að leggja nokkur orð í belg varðandi Matvælasjóð, stofnun nýs sjóðs, og drepa á örfáum atriðum. Í fyrsta lagi fagna ég því að verið sé að auka fé til rannsókna og nýsköpunar og þróunar í landbúnaði og sjávarútvegi. Ég fagna því. Ég tel rétt að gefa þar í á þessum tímum og efla innlenda framleiðslu, efla þróun og vöruþróun í þessum efnum, en ég bendi jafnframt á þann mikla aðstöðumun sem er á sjávarútvegi og landbúnaði í þessu tilliti. Það er himinn og haf, herra forseti, ef ég má orða það þannig, á milli sjávarútvegs og landbúnaðar hvað varðar alla umgjörð, fjármagn og aðstöðu til rannsókna, nýsköpunar og þróunar í þessum tveimur greinum. Á meðan bændur, sauðfjárbændur sérstaklega og kúabændur og fleiri, að ógleymdum garðyrkjubændum, rétt draga fram lífið og varla það á sínum rekstri, er allt aðra sögu að segja varðandi sjávarútveg sem hefur gengið vel og er það vel. Nýsköpun og þróun hefur verið þar mjög öflug á undanförnum árum og fullt tilefni til að halda því áfram, en varast þarf sérstaklega að það verði einhver skil í því hversu mikið fjármagn fer til landbúnaðarrannsókna, sérstaklega í sameinuðum sjóði eins og Matvælasjóði. Ég hef áhyggjur af því vegna þessa mikla muns.

Það verður að gefa virkilega í varðandi þróun í landbúnaði, rannsóknir og nýsköpun til að reyna að reisa þessa grein á þann stall sem ég held að hún eigi skilið af okkur. Þar vil ég nefna matvælaöryggi. Ég tel mjög mikilvægt að við framleiðum hér á Íslandi og sköpum aðstæður til þess að framleitt verði sem mest af þeim matvælum sem við notum innan lands úr landbúnaði og sjávarútvegi. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að leggja meira fé í það og fagna því sérstaklega hér í byrjun.

Ég ætla að fjalla um tvö, þrjú atriði í viðbót. Fyrst um stofnun þessa sjóðs. Mér finnst það illskiljanlegt, herra forseti, að verið sé að setja á fót nýja stofnun utan um þetta aukna fé þegar fyrir eru tveir sjóðir sem hafa allt verklag, allt skipulag og utanumhald um það sem þeir vinna að. Þeim myndi reynast það létt, tel ég, og mér heyrðist það á því sem fulltrúar þeirra sögðu sjálfir, það myndi veitast þeim létt að taka við þessu fé og deila því út hratt og örugglega til þessara þörfu málefna. Það er því illskiljanlegt að nú sé verið að stofna nýjan sjóð utan um þetta fé. Ég átta mig ekki alveg á því að núna, þegar við erum að berjast við atvinnuleysi og afleiðingar af faraldrinum, samgöngubanni og öllu því sem fylgir, skuli ráðist í nýja stofnun. Það þarf auðvitað tíma til að stofnsetja hana, ráða fólk, skipa menn og búa til umgjörð utan um umsóknarferli og o.s.frv. Þetta er allt til staðar þannig að ég á ekki auðvelt með að átta mig á því af hverju ráðist er í þetta núna. Það er eins og þetta sé einhvers konar verkefni sem hafa beðið í einni af skúffunum í ráðuneytinu. Þar eru margar skúffur og mörg verkefni, mörg draumafrumvörp og -tillögur sem þar bíða og þegar kemur svona tækifæri, einhvers konar sveiflur í efnahagslífinu eða þjóðfélaginu, þá birtast oft þessi skjöl og koma hingað inn. Þessi sjóður var í öðru frumvarpi fyrr í vetur en þar var honum rutt út af borðinu, ef svo má segja, og endaði með því að hann var lagður til hliðar í desember. En nú er hann kominn hér aftur í apríl þegar við berjumst við veirufaraldur. Ég á svolítið erfitt með að átta mig á þessu, herra forseti, og ég heyrði að sumir aðrir þingmenn hafa tjáð sig um þetta með svipuðum hætti, vegna þess að þetta tefur málið og tefur afgreiðslu umsókna. Það veldur töfum að fara að stofna þennan sjóð því að eins og ég sagði áðan eru mörg verkin til að hefja svona starf.

Í öðru lagi, fyrir utan þetta, velti ég fyrir mér: Er það eitthvert sérstakt, hafa komið einhverjar vísbendingar eða eru einhver merki um að þeir sjóðir sem nú eru til staðar, og á að leggja niður í sjávarútvegi annars vegar og landbúnaði hins vegar, hafi ekki verið að sinna sínu hlutverki? Er það ástæðan fyrir þessu? Sinna þeir ekki hlutverki sínu? Ég hef ekki heyrt það, en gaman væri að fá það upp á borðið hvort þeir hafi verið ómögulegir, hvort þarna sé ómögulegt fólk innan borðs eða verklagið alveg afleitt. Ég hef ekki heyrt það. Þess þá heldur, af hverju er þá verið að hlaupa til og stofna þennan Matvælasjóð?

Í þriðja lagi vil ég benda á markmið sjóðsins. Þetta nafn, Matvælasjóður, gæti verið svolítið hamlandi, þ.e. að styðja við rannsóknir og þróun o.s.frv. og nýsköpun í matvælaframleiðslu. Það eru ýmis verkefni á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs sem er kannski ekki auðvelt að tengja beint við matvælaframleiðslu. Hvað verður um þau? Þegar ég skoðaði úthlutanir úr þessum sjóðum var hægt að finna ákveðin verkefni sem er kannski ekki svo auðvelt að tengja beint við matvælaframleiðslu. Munu slík verkefni falla á milli skips og bryggju eða hvað? Heiti sjóðsins er gamaldags; Matvælasjóður. Þetta er nafn sem mönnum hefði getað dottið í hug árið 1980. Í dag myndu framfarasinnaðir menn tala um nýsköpun, framleiðni eða hagvaxtarsjóð eða eitthvað slíkt. En þarna er kosið að binda það við matvæli. Ég velti fyrir mér hvort það geti í framtíðinni verið hamlandi og komið í veg fyrir að einhverjar framkvæmdir, rannsóknir eða verkefni myndu falla útbyrðis vegna þessa nafns, menn væru bundnir við það. Ég velti þessu því fyrir mér, herra forseti, og leyfi mér að orða það hér.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið en eins og ég sagði fyrst er ég hissa á því að þetta mál skuli koma fram núna og vera klætt í þann búning að hér sé um sérstakt átak að ræða vegna veirufaraldursins. Ég er ekki að kaupa það. Ég kaupi það að veittur sé meiri peningur í þessi málefni en ég kaupi það ekki að umbylta þurfi sjóðakerfi landbúnaðar og sjávarútvegs.

Ég hef líka áhyggjur af garðyrkjunni. Mér skilst á ráðherra að það sé í öðrum farvegi hvernig garðyrkjan verði studd í því ástandi sem nú er. Ég er auðvitað mjög fylgjandi því að stutt sé vel við bakið á garðyrkjubændum og þeim gert kleift að framleiða meira af vörum fyrir innanlandsmarkað og það gert hagkvæmara og ódýrara fyrir bændur að stunda garðyrkju. Að svo búnu læt ég þetta duga, herra forseti.

(Forseti (BN): Forseti hefði þegið að hv. þingmaður hefði teygt lopann aðeins, það vantar næsta þingmann sem mun væntanlega vera á leiðinni.)