Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[12:03]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvað er það sem starfshópur innviðaráðherra, sem samanstóð af fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar, fulltrúum atvinnurekenda og fulltrúum stjórnvalda, lagði áherslu á þegar kemur að félagslegri húsnæðisuppbyggingu og almenna íbúðakerfinu? Hópurinn lagði áherslu á fyrirsjáanlega fjármögnun næstu árin. Það er alveg ljóst og ég held að það viti það allir í þessum sal að þær fjárveitingar sem gert er ráð fyrir í þessari fjármálaáætlun duga ekki fyrir samningsmarkmiðum þessa rammasamkomulags. Að þessu leyti er ríkið að einhverju leyti að kasta inn handklæðinu, ætlar ekki að standa við sitt samkvæmt þessari fjármálaáætlun. En svo kemur hæstv. ráðherra og segir: Ja, við getum kannski bara bætt í í fjárlögum. En til hvers er þá þessi fjármálaáætlun hérna? Hvar er fyrirsjáanleikinn í þessu öllu saman?

Höldum okkur við húsnæðismálin. Í þessari fjármálaáætlun er gert ráð fyrir algerri stöðnun í húsnæðisstuðningi og þá er ég að tala um tilfærslukerfin. Ég tók eftir því að í flutningsræðu hæstv. fjármálaráðherra var talað um aukningu vaxtabóta og húsnæðisbóta í þátíð en ekki í nútíð eða framtíð. Það væri fróðlegt að vita t.d. hvort hæstv. ráðherra hafi horft á Kastljóssþáttinn um húsnæðismál hérna fyrr í vikunni þar sem vandanum var svo ágætlega lýst, þar sem talað var við fólk sem er í vanda, er fast á leigumarkaði o.s.frv. Er það í alvörunni skoðun hæstv. ráðherra að fólkið sem er fast á leigumarkaði og fólkið sem er að lenda harkalega í þessum vaxtahækkunum, sér greiðslubyrðina rjúka upp úr öllu valdi, þurfi engan frekari stuðning, þetta sé bara komið gott? Að ríkisstjórnin sé búin að gera sitt og nú sé bara hægt að leyfa þessum tilfærslukerfum að staðna á næstu árum?