Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[12:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áður þá tel ég að það þurfi að fylgjast mjög náið með því, ár frá ári, hvernig áform um uppbyggingar á almennum íbúðum munu ganga eftir. Ég ætla að láta þess getið að ég tel alls ekki sjálfgefið að Húsnæðissjóður myndi fjármagna allt það húsnæði sem á að rísa í almenna íbúðakerfinu. En ríkið er fyrst og fremst að koma með stofnframlagið og við erum auðvitað með húsnæðisbætur fyrir þá sem flytja í slíkt húsnæði og svo í ákveðnum tilvikum er Húsnæðissjóður til staðar til þess að fjármagna þar sem markaðsbrestur verður. Fyrir þá sem ala með sér draum um að koma yfir sig þaki, sem er yfirgnæfandi meiri hluti alls fólks, þá erum við með margvísleg úrræði. Ég ætla samt að byrja að tala um grundvallarþætti eins og hátt atvinnustig, það er algjört grundvallaratriði, og góðan kaupmátt. Atvinnustig er í dag hátt, kaupmáttur hefur áður ekki verið hærri. Hann er mjög sterkur á Íslandi. Í þessu samhengi erum við með góðar ytri aðstæður. Því til viðbótar er ekki hægt að sleppa því að nefna að samkvæmt mælingum Hagstofunnar er erfitt að finna þann tíma þar sem fjölskyldum þykir húsnæðiskostnaður vera minna íþyngjandi en einmitt núna. Hafandi sagt það þá vitum við að það eru margir með breytilega vexti á óverðtryggðum lánum sem vofa yfir þeim og vaxtabreytingar fram undan. Um þetta var rætt á ársfundi Seðlabankans í gær og m.a. komið inn á skyldu fjármálafyrirtækjanna til að koma til móts við fólk. Ég hlýt sömuleiðis að nefna hér skattfrjálsar úttektir séreignarsparnaðar sem eru komnar yfir 100 milljarða frá því að við tókum það kerfi upp og við munum núna framlengja, eins og rætt var um í tengslum við gerð kjarasamninga undir lok síðasta árs, út næsta ár. Allt eru þetta úrræði sem geta komið fólki til aðstoðar. Hópurinn sem ég hef sérstaklega áhyggjur af í augnablikinu er fólkið (Forseti hringir.) sem er með óverðtryggðu lánin á breytilegum vöxtum annars vegar og svo hins vegar þeir sem ekki eru þegar komnir inn á markaðinn.