Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[12:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessum spurningum er mjög auðvelt að svara í samskiptum við nefndina. Ég er ekki alveg viss um að ég hafi náð þeim samanburði sem hv. þingmaður er að vísa til en á bls. 29 er verið að sýna breytingar í prósentum í þjóðhagsyfirlitinu á opinberri fjárfestingu og á bls. 30 er dregin upp mynd af tilteknum afmörkuðum verkefnum sem eru valin til að sýna á mynd. Það sem er verið að vekja athygli á þar eru annars vegar áhrifin af því að vegaframkvæmdir og Betri samgöngur samanlagt munu vaxa vegna þess að í þessari áætlun, þegar rætt er um samgöngur, er ekki hægt í raun og veru að gera grein fyrir áhrifunum af Betri samgöngum sem eru komnar í sérstakt félag. Það þótti góð hugmynd að setja þetta saman til að leggja saman áhrifin ef áformin eins og þau eru í dag ganga eftir. Í öðru lagi er verið að vekja athygli á gríðarlegu umfangi við fjárfestingar í Landspítala, fyrsta áfanga, en á myndinni sjáum við hvernig framkvæmdir sem hafa legið undir 10 milljörðum og í kringum 10 milljarða fara upp í 18 milljarða á þessu ári og langt yfir 25 milljarða á næsta ári. Það er spáð að það verði 25 milljarða fjárfesting í Landspítala á næsta ári. Svo að lokum er reynt að draga fram áhrifin af því ef áform orkufyrirtækjanna, Landsvirkjunar, Rarik og Orkubús Vestfjarða og Landsnets myndu ganga eftir. Þá yrði töluvert mikil fjárfesting, sérstaklega á síðari hlutanum, árin 2025 og 2026. Allt er þetta sett fram til að glöggva sýnina á þessi helstu fjárfestingarverkefni sem við erum að ráðast í þessi ár.