Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[12:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi þá hækkaði Seðlabankinn vexti um 1% áður en þessi áætlun kom fram. Í öðru lagi þá fékk Hagstofan lokadrög að þessari áætlun áður en þjóðhagsspáin var gefin út, þ.e. við deilum með Hagstofunni okkar áformum um fjármálaáætlun þannig að það er gagnvirkt samtal við Hagstofuna. Fyrst fáum við drög að þjóðhagsspá. Síðan greinum við Hagstofunni frá okkar áformum og síðan verður til endanleg þjóðhagsspá. Ég vek athygli á því að þegar við erum að skoða opinbera fjárfestingu sem hlutföll af landsframleiðslu þá er landsframleiðslan á komandi árum að vaxa töluvert mikið. Það kann að hafa einhver áhrif á þetta atriði sem hv. þingmaður er að spyrja um vegna þess að þegar hagkerfið vex úr um 4.000 milljörðum og er að nálgast 5.000 milljarða í lok spátímans þá er það gríðarlega mikil breyting og 20–40 milljarða, jafnvel 80 milljarða aukin fjárfesting verður minni sem hlutfall í lok tímans en hún er í upphafi. Þar fyrir utan eru að klárast á áætlunartímabilinu ákveðnar framkvæmdir sem eru inni, við getum horft til framkvæmda eins og við Hús íslenskra fræða. Slíkar framkvæmdir eru smám saman að klárast og það kann að vega á móti. En mér finnst þetta samt sem áður eðlilegar spurningar og við skulum bara fara yfir það hvernig þessir tveir hlutir ríma saman, að við séum að auka í þessar stóru framkvæmdir á sama tíma og það er ekki að mælast mjög mikil aukning í hlutfalli af landsframleiðslu.