Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[12:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er algjört grundvallaratriði að okkur hefur tekist, þrátt fyrir heimsfaraldur og verðbólguna sem hefur farið upp, að ekki bara vernda kaupmátt bóta í almannatryggingakerfinu heldur hefur launafólk sömuleiðis náð að verja kaupmátt sinn. Okkar skilaboð við þessar aðstæður eru þau, að við þurfum aðeins að halda aftur af okkur við að auka útgjöldin. Það er á sumum sviðum óumflýjanlegt. Við höfum verið að stórbæta framlögin í heilbrigðiskerfið og erum því til viðbótar að reisa glæsilegan nýjan spítala, sem er stærsta fjárfestingarverkefni ríkisins og stærsta innviðafjárfesting í heilbrigðiskerfinu sem við höfum ráðist í. En á sama tíma verðum við að halda aftur af okkur með ný útgjöld og gera auknar kröfur til þess að fjármunir nýtist betur, vegna þess að það er allra hagur að verðbólgan lækki og komi aftur niður, sérstaklega fyrir þá sem hv. þingmaður er hér að tala fyrir. En ég heyri engar afgerandi lausnir sem eru líklegar til þess að valda því að verðbólgan hjaðni.