Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[13:20]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hressilega ræðu og það er gott að vera farin að tala hér um þetta plagg sem töluvert hefur verið beðið eftir. Hv. þingmaður og ég, við komum úr flokkum sem hafa gagnrýnt fjármál ríkisins á stundum úr mismunandi áttum, tekju- og gjaldahlið, ef svo má segja, en það breytir því ekki að við erum oft sammála. Mig langaði svolítið að heyra skoðanir hv. þingmanns á þeim áskorunum og vandamálum sem við eigum við að etja í heilbrigðiskerfinu núna. Ég held að það sé ekkert okkar sem hafi sloppið við að heyra dæmisögur um að þar má gera betur, svo að ég vandi orð mín. Er hv. þingmaður á því að hér sé eingöngu um að kenna skorti á fjármunum í heilbrigðiskerfið í stóru myndinni eða er hægt að fara þar betur með fjármuni og nýta þá annaðhvort svigrúm sem af því fengist til að greiða niður skuldir eða vinna á einhvern annan hátt bug á þeirri stöðu sem við erum nú í með ríkisfjármálin okkar? Það er svo auðvelt að tala um þessar aðstæður í heilbrigðiskerfinu sem eru ekki boðlegar fyrir sjúklinga, ekki fyrir aðstandendur og ekki fyrir starfsfólk með því að segja bara: Það vantar meiri peninga. Telur hv. þingmaður það vera einu leiðina og ef ekki, hvað annað er til ráða?