Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[13:53]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu þar sem farið var um víðan völl, prýðisgóða ræðu. Mig langar aðeins að nefna það í upphafi að mér finnst svolítið skemmtilegt hvernig hann fer sömu leið og hæstv. ráðherra og aðrir stjórnarliðar sem eru farnir að tala um frumjöfnuð af miklum móð þegar kemur að því að ræða um fjármál ríkisins. Það er svolítið skemmtilegt. Það veldur mér reyndar smááhyggjum — ég segi kannski ekki áhyggjum en mér þykir það áhugavert, vegna þess að við erum að tala um jöfnuð tekna og gjalda að frádregnum fjármagnstekjum og gjöldum — að ef það er afgangur ætti að nýta hann í að greiða niður vaxtagjöld sem eru um 90 milljarðar á þessu ári samkvæmt áætlun. Og þessi mikla og nýja áhersla vekur hjá mér hugrenningar um að mögulega hafi stjórnarliðar óttast að enginn afgangur yrði til þess að fara í þessar niðurgreiðslur, ég vona að það sé rangt. Hvað sem því líður er þetta nú kannski ekki, í ljósi þeirra vaxtagjalda sem við stöndum frammi fyrir, endilega merki um prýðisgóðan árangur í ríkisfjármálum. Það er eitthvað til að fagna, vissulega, að staðan er þó ekki svo slæm að við eigum ekki fyrir inngreiðslu á vaxtagjöldin.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann sem talsmaður Framsóknarflokksins í þessum umræðum og fulltrúi í fjárlaganefnd er sáttur við, eins og hann sagði í upphafi þegar hann endurtók orð hæstv. fjármálaráðherra, þetta markmið um að ná niður verðbólgu og vöxtum? Er hann sáttur við aðhaldsaðgerðir sem koma fram í þessari fjármálaáætlun? Er þetta, að mati talsmanns Framsóknarflokksins hér, nægilegt? Er gengið eins langt og hægt er að ganga á tímum 10% verðbólgu og sligandi vaxtakostnaðar, er þetta nóg? Það er óbærilega freistandi að nota þekktan enskan frasa til að hnykkja á spurningunni, en ég ætla að íslenska hann og segja: Var ekki hægt að gera betur í því að setja einhverjar hömlur á vöxt ríkisútgjalda ár frá ári, ekki ríkisútgjöld heldur vöxt ríkisútgjalda?