Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[13:55]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góðar spurningar. Ég kom inn á það í ræðu minni að það er alltaf hægt að gera betur. (Gripið fram í.) Það er nefnilega góð spurning.

Virðulegi forseti. Hér er verið að mæla fyrir þingsályktunartillögu og hv. þingmanni er fullkunnugt um ferilinn sem fer af stað í framhaldinu. Hv. þingmaður spurði mig: Er þetta nægjanlegt aðhald? Því get ég ekki svarað fyrr en ég hef farið í gegnum vinnuna sem fram undan er í fjárlaganefnd og farið í gegnum greiningarnar og annað. Við fengum þetta til okkar í fyrradag, þá fengum við kynningu á þessu og fórum að blaða í gegnum þetta. Vissulega er það þannig, hvort sem það er hv. þingmaður sem stendur hér eða hv. þingmenn sem sitja hér úti í sal, að menn eiga eftir að rýna og fara yfir þingsályktunartillöguna. En það er líka þannig að við verðum að bera traust til þeirra ráðherra sem leggja af stað í verkefnið og til stjórnsýslunnar heilt yfir sem leggur af stað með skipið. Það er síðan okkar að sigla því í höfn og fara yfir þetta.

Það má síðan vel vera, þegar að lokum kemur og við erum komin í höfn, að þingsályktunartillagan líti einhvern veginn öðruvísi út.