Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:27]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Ég held að stór breyting til batnaðar hér væri að forystumenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja myndu allir ydda sig í því að vera talsmenn neytenda. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Varðandi húsnæðismálin þá held ég að það komi líka inn á þetta atriði sem var verið að ræða um hér inni í sal rétt áðan þegar ég ræddi við hv. þm. Þórarin Inga Pétursson í andsvörum mínum við góða ræðu hans. Þegar stjórnvöld veigra sér við að fara inn í reksturinn, vegna þess að það er erfiðara, það er kannski tímafrekara og það krefst framlags frá þeim sjálfum, þegar ríkisstjórnin veigrar sér við þær aðgerðir til að hagræða en fer heldur í framkvæmdir, þá eru menn kannski líka að búa í haginn fyrir næstu krísu. Við vitum hver staða ungs fólks er á markaði; annars vegar fólksins sem er að glíma við hækkandi lán en ekki síður fólksins sem ekki kemst inn á markaðinn, nær því ekki að komast í hóp fyrstu kaupenda. Verði mikil kæling núna á uppbyggingu í húsnæði þá eru stjórnvöld einfaldlega að taka sér það hlutverk að hlaða upp í næstu bólu. Það er þannig svo margt sem vinnur með því að menn sýni þann kjark og þann karakter að taka til í rekstrinum sjálfum í stað þess að vera eilíflega að kippa framkvæmdum inn og út eftir því hvernig vindar blása í efnahagslífinu.