Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem á við um mælingar á verðbólgunni hefur legið fyrir í langan tíma. Það er því ekkert nýtt að gerast síðasta mánuðinn varðandi verðbólgu til 5 ára, annað en það sem hefur verið sagt og gert. Hér er komin fjármálaáætlun og það hafa verið vaxtahækkanir. Einhver áhrif hafa breytingar sem eru að verða á erlendum mörkuðum. Ég held því fram að þetta sé saman að leggjast á sveif með því að taka niður verðbólguvæntingar til lengri tíma.

Varðandi fjármálaáætlunina er það eitt hvernig hún er lögð fyrir þingið en annað er það að þingið verður síðan að afgreiða hana og þingið getur haft áhrif á rammana og væntar fjárheimildir til einstakra málaflokka o.s.frv. með nákvæmlega sama hætti og gert er með fjárlögin. Það sem ég hef kannski saknað aðeins eins og lögin eru hugsuð, lögin um opinber fjármál, er að ársskýrslur ráðherranna séu ekki meira grundvallargagn í þessu uppgjöri milli framkvæmdarvalds og þings um framgang einstakra mála. Það var hugsunin að ráðherrar myndu koma fyrir þingið og gera grein fyrir því á miðju ári, hver fyrir sinn málaflokk, hvernig staðan væri og hvernig áætlanir og stefnumörkun væri að ganga fram miðað við fjárheimildir sem þeir hefðu fengið samþykktar á þinginu. Mér finnst þetta hafa orðið frekar veigalítill þáttur í heildarumfjölluninni.

Það er síðan þannig að við erum að byggja á utanaðkomandi spám. Við notum t.d. þjóðhagsspá Hagstofunnar um verðbólguna til framtíðar og ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að það er ekki komið að því að maður trúi því hundrað prósent að verðbólgan verði 2,5% eftir tiltölulega fá misseri. En svona eru þessi spálíkön, það verður bara að taka þeim með þeim fyrirvara. En það er til mikils að vinna að ná verðbólgunni niður, jafnvel þótti hún verði ekki komin niður í 2,5%. Ef hún væri komin innan vikmarka værum við komin á miklu betri stað.