Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, hún er svolítið merkileg þessi þjóðhagsspá til lengri tíma, hún endar bara alltaf í 2,5% verðbólgu eftir fjögur til fimm ár. Og hvað? Hvernig? Þýðir það að ef ríkisstjórnin gerir ekki neitt og fjárlög og allt verða óbreytt þá endar það bara þannig, ef allt fer í alvörunni eftir öllum spám? Ég held í alvörunni ekki. Ég held að þetta sé bara ákveðinn galli í módelinu sem er notað til að reikna þetta. Ég myndi a.m.k. vilja sjá útskýringar á því hvað það er sem veldur þessari lækkun, ekki bara einhvers konar þróun.

Hvað varðar ársskýrslu ráðherra þá er ég algerlega sammála hæstv. fjármálaráðherra að þær hefðu átt að vera ákveðið uppgjör. En ástæðan fyrir því að þær eru það ekki er sú að markmiðssetningin, stefnumörkun stjórnvalda varðandi markmið og mælikvarða, er bara því miður ekki nógu góð. Það vantar kostnaðarmat og ábatagreiningu sem þýðir að þegar við skoðum hvernig tókst til þá vitum við ekkert hvað hlutirnir kostuðu. Hvað búist var við að hlutirnir myndu kosta og hvað þeir kostuðu síðan í raun og veru. Þá getum við ekki lagt mat á það hvort einhver árangur hafi náðst með þeim fjárheimildum sem við samþykktum hérna, sem við vissum í raun ekkert sérstaklega mikið um hversu miklar voru til að byrja með. Við fáum ekki kostnaðarmatið og þá samþykkjum við einhverjar fjárheimildir sem eru bara í einum stórum svörtum kassa. Við vitum ekkert hversu mikið á að fara í hvert verkefni. Þá er alltaf hægt að segja eftir á: Þetta tókst rosalega vel. Við náðum þessu markmiði. Hvað kostaði það mikið? Það kostaði 30 milljónir. En hefði verið hægt að gera það fyrir 10 milljónir? Það vitum við ekki. Við náðum alla vega að gera það fyrir 30 milljónir. Það er bara ekki hægt að segja að þetta hefi verið góð notkun á almannafé vegna þess að við getum ekki svarað því hvort hlutirnir hafi verið ódýrari eða dýrari.