Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Nú er þetta ágætisdoðrantur hérna og maður hefur ýmsar spurningar um ýmislegt. Ég bryddaði t.d. upp á opinberu fjárfestingunni sem mér finnst dálítið kostuleg. Ég veit ekki hvar þessir 80 milljarðar þarna eru og ég veit ekki hvort til séu svör við því eða hvort það þurfi að búa þau svör til einhvern veginn. Svona með tilliti til umræðunnar í gær þá veltir maður því fyrir sér hvernig fyrirspurnum fjárlaganefndar verður tekið ef svörin verða bara: Nei, af því að við höfum ekki gögn um það. Við ætlum bara ekkert að svara því af því að þar eru engin gögn um það.

Ég fékk smá sjokk í gær, ég verð að viðurkenna það, þegar ég heyrði þessa skoðun hæstv. fjármálaráðherra, að þingnefndir gætu ekki beðið stjórnvöld um gögn ef það þyrfti að búa þau til. Þannig að ég velti fyrir mér og spyr hv. formann fjárlaganefndar: Í hvaða stöðu er fjárlaganefnd núna þegar hún ætlar að fara að biðja um upplýsingar frá stjórnvöldum sem geta kannski útskýrt ýmiss konar vandamál sem eru í fjármálaáætluninni en eru kannski ekkert aðgengilegar og það þarf að fara að búa til einhverjar greiningar og minnisblöð o.s.frv., sem við höfum kannski ekki heimild til?