Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:08]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef nú ekki áhyggjur af því. Við í fjárlaganefndinni höfum átt gott samstarf við fjármálaráðuneytið þegar kemur að beiðnum um gögn. Hæstv. ráðherra tók ágætlega í þessa ábendingu hv. þingmanns og ég heyrði ekki betur en að hann væri tilbúinn til að skoða hana. Ég held að við eigum að gera það og það er eitt af því sem við getum meira að segja sett í gang bara núna að verði reynt að kalla eftir og ég mun ræða það við ritara nefndarinnar að setja þetta í gang. Þannig að ég hef ekki áhyggjur af því að við eigum ekki góða samvinnu við ráðuneytið. Við höfum, held ég, ekkert annað en gott af því að segja og ég treysti mér alveg til að senda alls konar fyrirspurnir og fá við þeim svör, þannig að ég held að við eigum að vera ófeimin við það. Eins og þessi doðrantur gefur til kynna er auðvitað þörf á alls konar útskýringum, eins og gefur að skilja, og þegar við förum að fá inn umsagnirnar frá aðilum sem — ja, eigum við ekki að segja að a.m.k. það sem komið er fram inniheldur mjög ólíkar nálganir eðli máls samkvæmt. Fólk er í hagsmunagæslu fyrir mismunandi aðila. En við munum þurfa að skoða allt og óska eftir upplýsingum frá mörgum ráðuneytum og ég ætla að segja það hér að ég hef ekki áhyggjur af svörum þaðan.