Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:35]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Við erum komin undir lok opinnar umræðu um fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Eftir páskahlé þá tökum við til við að ræða einstök málefnasvið og spyrja ráðherra út í áform og hvernig þeir hyggjast nýta áætlanagerðina sér til gagns, hvaða áherslu þeir leggja og ræða síðan mælikvarða og markmið. En ég ætla samt að byrja á því, án þess að ég fari kannski af mikilli dýpt ofan í þessa þykku bók í þessari ræðu í dag, að rifja það upp að fyrir ári síðan lagði fjármálaráðherra fram fjármálaáætlun sem fór til meðferðar í fjárlaganefnd og eftir umræður þar voru gerðar breytingar vegna aðstæðna sem ég ætla ekki að rekja hér nánar, en þær breytingar voru umtalsverðar. Þær voru viðbrögð við bæði umræðum um fjármálaáætlun og ábendingum og umsögnum, en voru ekki síður til að bregðast við því ástandi í efnahagslífinu sem þá var að teiknast upp.

Ég ætla að gera þá játningu, virðulegi forseti, standandi hér í dag, að ég hefði ekki getað spáð því að við værum komin á þann stað í ríkisfjármálum sem við erum í dag, rétt ári síðar, ekki einu sinni þegar við vorum að afgreiða hér fjárlög fyrir síðustu jól, og við vorum að afgreiða fjárlög með umtalsverðum halla, tæpum 120 milljörðum, að við værum komin á þann stað að vera að ná frumjöfnuði þegar á þessu ári. Mér finnst það stórmerkilegt. Mér finnst mjög merkilegt að það horfi þannig í rekstri ríkissjóðs að hann sé hættur að safna skuldum þegar á þessu ári. Það undirstrikar fyrir mér fyrst og fremst að þau viðbrögð sem við beittum hér í skyndilegu áfalli vegna heimsfaraldurs hafa svo sannarlega sannað gildi sitt. Viðspyrnan er mun sterkari. Þetta er fjármálaáætlun sem er vitnisburður um sterka viðspyrnu, um öflugt, þróttugt efnahagslíf, um kraftmikið efnahagslíf sem er að fara hratt upp og ná fyrri styrk og stöðu. Þess vegna er svo mikilvægt að við horfum til þess við meðferð á þessari fjármálaáætlun hvort við getum mögulega gert enn betur og enn hraðar.

Við höfum rætt hér í dag um það mein sem verðbólga er. Verðbólgan er mikið mein. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að þegar eru komin fram áhrif af skýrum skilaboðum þessarar fjármálaáætlunar út á markaðinn, út í samfélagið, um að við séum að slá á verðbólguvæntingar. Það hefur hæstv. fjármálaráðherra rakið í andsvörum og í sinni framsöguræðu hér í dag að það er þegar farið að hafa áhrif að hafa lagt fram fjármálaáætlun sem er jafn ábyrg og hún birtist okkur og við höfum rætt um í dag.

Ég ætti í sjálfu sér ekki að leggja það til en leyfi mér samt að gera það, virðulegi forseti: Ég held það væri ágæt lesning fyrir fólk yfir páskastoppið að lesa hina merku bók Jóhannesar Nordals og læra af henni um hver eru grundvallaratriðin í efnahagsstjórn. Fyrir mér er það mesta kennslubók sem ég hef lesið í þessum efnum. Ég segi þetta vegna þess að ég meina það vegna þess að það er ákaflega mikilvægt að við komumst sem fyrst á þann stað að við séum ekki að eyða um efni fram. Það á við okkur öll, ekki bara ríkissjóð heldur okkur öll. Ef ég ætti að segja hvers ég sakna helst úr áherslum ríkisstjórnar í efnahagsmálum þá er það það að við skulum ekki hvetja til meiri sparnaðar, meiri ráðvendni fólks, að við ýtum undir að það sé eðlilegasti hlutur að leggja til hliðar.

Nú frábið ég mér hér ræður um það að það geti ekki allir sparað, ég geri mér fulla grein fyrir því. En það er samt þannig, og fjármálaáætlunin vitnar um það, að hér er kaupmáttur gríðarlega sterkur þrátt fyrir allt og hann hefur verið varinn í gegnum þessi áföll. Það er mjög merkilegt. Þess vegna ættum við ekki síður að vera að ræða, ekki bara um aðhald í rekstri ríkissjóðs heldur líka hvernig við getum hvatt til aukins sparnaðar barnafólks og hjálpað þeim og haft réttu hvatana í þeim efnum. Ég er ekki að mæla fyrir um skyldusparnað eða einhverjar þvingaðar aðgerðir til þess að fólk leggi til hliðar, heldur að það verði fyrst og fremst áhugavert að spara þannig að verði ekki hið sjálfsagða viðbragð fólks að það þurfi að eyða hverri krónu sem kemur inn á heimilið. En það er auðveldara um að tala en í að komast, ég geri mér fulla grein fyrir því. En ef við erum að tala um hvata, um stefnu, um áherslur, þá er þetta það sem ég sakna, að við séum ekki að tala meira fyrir því.

Ég get í sjálfu sér líka rifjað upp fjárlagaumræðuna hér fyrir nokkrum vikum eða mánuðum síðan og vottað um það í þessum ræðustól að maður hafði beyg af þeim mikla halla sem við vorum að samþykkja. En eftir langa reynslu af því að fjalla um fjárlagafrumvörp og fjármálaáætlanir seinni ár get ég sagt að við höfum oftar en ekki fylgt vextinum þegar viðreisnin er hröð eða vöxturinn er hraður. Þess vegna hefði maður kannski ekkert svo geigvænlegar áhyggjur af þeim fjárlagahalla sem þar birtist, enda eru tölurnar núna komnar fram, og það er orðið staðreynd að fjárlög og ábyrg framkvæmd þeirra á þessu ári munu vera eitt af þeim viðbrögðum sem við höfum til að ráðast á og ráða við þá verðbólgu sem hér er. Verðbólgan er ekki séríslenskt fyrirbæri. Það höfum við svo sem rætt í fleiri ræðum hér í dag. Það eru mörg ríki að glíma við jafnvel meiri verðbólgu en við. Við sjáum hana lækka erlendis, við sjáum hana lækka hér og við tökum hér alla vega skref sem slær á væntingar, því að væntingarnar eru allt of háar og það eru þær sem við þurfum fyrst og fremst að ráða við.

Virðulegur forseti. Ég get í sjálfu sér, eins og margir gera, grafið mig ofan í einstaka liði þessarar fjármálaáætlunar. Ég ætla ekki að gera það, ég ætla bara að tala um þessa breiðu línur. Margir kveinka sér eða sproksetja umræðu um frumjöfnuð og ég skal alveg játa það að fyrir mér var orðið frumjöfnuður ekki tamt á tungu fyrr en fyrir nokkrum árum síðan. En það er alla vega fyrsta þrepið sem við þurfum að ná. Næsta þrep er heildarjöfnuður og áætlunin er mjög skýr um hvernig við náum heildarjöfnuði. Ég hef alla trú á því að hann náist mun fyrr og það er mjög nauðsynlegt að ná honum fyrr. Ég vænti þess að þegar þingið ræðir fjárlagafrumvarp hér næsta haust höfum við aðrar horfur og aðrar væntingar um að ná heildarjöfnuði og byrja að greiða niður skuldir.

Ein þungamiðja fjármálaáætlunar er aðhald. Ég held að það sé aldrei of mikið talað um aðhald, sparnað, skilvirkni. Ég ætla að segja að ég hef fulla trú á því að við getum sýnt meira aðhald og sýnt fram á að við getum gert betur. Sameiningar stofnana hafa verið nefndar í þessum efnum og fækkun smárra eininga. Við tökumst mikið á um sameiningu stofnana. Við erum stundum óviss um árangur af sameiningu stofnana. Ég styrkist mjög í þeirri skoðun að við þyrftum á ákveðnu skapalóni að halda í því sem við þurfum að leggja fram, hvort sem við ræðum það hér í þingsalnum eða höfum það tæki við höndina þegar við erum að leggja í sameiningar stofnana, að við beitum réttum mælikvörðum á að meta árangur af því og hvers við væntum af þeim hlutum. Ég er ekki að boða að það þyrfti sérstök sérlög um sameiningu stofnana, hvernig við ættum að vinna að þeim. Við þurfum að sýna og ræða ákveðið verklag í þeim efnum þannig að við getum treyst á árangur af sameiningu stofnana og við séum á hverjum tíma að gera eins vel og við getum í þeim efnum, bæði er varðar mannahald og síðan þá þjónustu sem viðkomandi stofnanir og að það hlutverk sem þær eiga að rækja sé sem best úr garði gert á hverjum tíma.

Virðulegi forseti. Ég átta mig fullkomlega á því að ég hef ekki sagt mikið í þessari ræðu sem er á dýptina um þessa fjármálaáætlun. Mér finnst ævinlega best, þegar við erum í fyrri umræðu um þessa þingsályktunartillögu um fimm ára fjármálaáætlun, að horfa á hinar stóru línur. Það er síðan vinnan í framhaldinu sem skiptir máli og þær umsagnir sem um áætlunina munu koma. Ég ætlaði ekki að týna mér í því að ræða um fjárheimildir einstakra ráðherra, rammana þeirra til næstu ára og í hvað þeir fara nákvæmlega. Það er aukaatriði, finnst mér, í allri þessari umræðu. Sannarlega er fjármálaáætlun og fyrsta ár hennar andlag fjárlagafrumvarps sem kemur hér til þingsins í haust og kannski eigum við fyrst og fremst út frá þeim áherslum að ræða hana og síðan breiðu línurnar og hvaða áhrif fjármálaáætlun hefur hér úti í samfélaginu og hvaða skilaboð hún er að senda. Ég er ekki í nokkrum vafa um að framlagning þessarar fjármálaáætlunar, ábyrg framkvæmd fjárlaga þessa árs og mun sterkari viðspyrna upp úr skyndilegri kreppu, sendir þau skilaboð að við stöndum styrkum fótum og við getum vaxið hratt. Og umræða hér um viðskiptahalla — það er eðlileg umræða sem ég held að við ættum að taka mikið oftar í þessum þingsal og er ágætlega reifað í heftinu sem fylgir fjármálaáætlun núna, hvar atvinnugreinar eru að vaxa. Við boðuðum það í skyndilegu kreppunni okkar að við ætluðum að vaxa út úr þessum samdrætti. Það er að raungerast og á því þurfum við að halda og það er það sem við þurfum að ræða, hvernig við höldum sem best utan um á næstu árum.