154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[15:13]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að óska hæstv. forsætisráðherra velfarnaðar í nýju starfi og spyrja hann um stóra gatið sem fráfarandi ríkisstjórn skilur eftir sig í ríkisfjármálunum vegna ófjármagnaða útgjaldaskuldbindinga. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað þann 20. mars að halda vöxtum óbreyttum, einhverjum hæstu vöxtum, stýrivöxtum, í hinum vestræna heimi. Nefndin vísaði sérstaklega til óvissu um ríkisfjármálin. Aðilar vinnumarkaðarins hafa gert sitt til að vinna gegn verðbólgu en það eru ríkisfjármálin sem eru í ólagi og enn liggur ekki fyrir fjármálaáætlun til næstu fimm ára þótt lögbundinn frestur til að kynna hana sé löngu liðinn. Auðvitað fagnar maður því þegar ríkisstjórnin verður við kröfum okkar jafnaðarmanna og verkalýðshreyfingarinnar um að styrkja tilfærslukerfin en 80 milljarðar kr. af nýju fjármagni frá ríkinu munu hafa þensluhvetjandi áhrif ef ekki er ráðist í mótvægisaðgerðir. Þess vegna spyr ég: Hvernig ætlar nýr forsætisráðherra og ríkisstjórn hans að stoppa í stóra gatið sem ríkisstjórn forvera hans skildi eftir?