154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[15:26]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hversu langt ætlar stjórnarandstaðan að seilast í ómálefnalegri umræðu í því eina augnamiði að forðast málin sem eru hér á dagskrá? Hvernig væri að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir stefnuna sem hún fylgir, fyrir málin sem liggja hér fyrir þinginu? Ég segi nú bara sem svo: Nú tapaði stjórnmálaflokkurinn Píratar fylgi í síðustu kosningum og fékk, ef ég man rétt, 8,6%. Það má velta því fyrir sér hvaða skilaboð felast í því til Pírata að hafa um 92% kjósenda annars hugar en að fylgja Pírötum. 92% völdu eitthvað annað fram yfir það að kjósa Pírata, en þeir eru mættir hér eins og þeirra réttur er og það er sjálfsagt að deila skoðunum hér á þinginu um það hvernig við viljum þróa samfélagið áfram í átt til meiri farsældar í þessu góða ríki sem við búum. En að hengja sig í það, (Forseti hringir.) þegar við erum með jafn breiðan meiri hluta á þinginu og nú er raunin og byggir á niðurstöðu kjósenda í landinu, (Forseti hringir.) þá finnst mér menn í raun og veru vera að sýna að þeir þora ekki í málefnalega umræðu. Tökum umræðuna um þingmálin og stefnuna.