154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[15:27]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða yfirlýsingu forsætisráðherra sem er að taka við embætti forsætisráðherra vegna þess að fyrrverandi forsætisráðherra gekk út og hætti. Þetta er í þriðja skipti á hálfu ári sem allt er stopp og við erum ekki að ræða málefnin vegna einhvers dramakasts í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar núna. Hver vill ekki ræða málefnin? Auðvitað þarf að ræða það þegar annan hvern dag, liggur við, gýs upp eitthvert væl um að fólk sé að pæla í að hætta að vinna saman. Við þurfum auðvitað að vita það: Er starfhæf stjórn í landinu? Svo berast fregnir af því að það voru ekki einu sinni bara þessir flokkar tala saman, það var verið að skoða einhverja aðra möguleika. Það er verið að skoða hitt og þetta. Við erum að fylgjast með raunveruleikasjónvarpi um ríkisstjórn Íslands, og hann spyr mig hér af hverju við erum ekki að ræða málefnin. Það er vegna þess að þið getið ekki hagað ykkur eins og fólk og unnið saman eins og þið séuð saman í einni ríkisstjórn. Þess vegna erum við ekki að ræða málefnin hér. Og það að óvinsælasti ráðherra ríkisstjórnar Íslands sé að taka við embætti forsætisráðuneytisins er málefni,(Forseti hringir.) virðulegi forseti. Það er málefni og það er allt í lagi ef hæstv. ráðherra svarar því bara eins og maður.