154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[15:31]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sjá menn ekki þversögnina sem hér birtist ítrekað í ræðum þegar sagt er: Seðlabankinn hefur miklar áhyggjur af ríkisfjármálastefnunni, hann spáir því að verðbólgan verði komin í 4% á árinu? Þetta er bara einfaldlega röng túlkun á niðurstöðu peningastefnunefndar síðast þó að nefndin telji að það sé enn þá mjög hátt spennustig í hagkerfinu. Það er hátt spennustig í hagkerfinu. Það er ekki fyrst og síðast byggt á því að áhyggjur séu af ríkisfjármálunum. Þetta er bara ekki rétt enda hafa ríkisfjármálin verið að þróast undanfarin misseri langt, langt umfram það sem við áður gerðum ráð fyrir í jákvæða átt. Að sjálfsögðu tek ég undir með hv. þingmanni þegar kemur að því að fara vel með opinbert fé. Við munum leita leiða til þess. Hér liggja fyrir þinginu frumvörp sem eru til þess hugsuð að einfalda stofnanakerfið og við munum áfram leita leiða til þess að forgangsraða fé þannig að það fari ekki í yfirbyggingu og stofnanir heldur í málefnin sjálf.