154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[15:52]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Er það furða þó að manni misbjóði sú valdníðsla valdhafanna sem við höfum orðið vitni að í kjölfar þess að Katrín Jakobsdóttir, fráfarandi forsætisráðherra, ákvað að hella sér í baráttuna um Bessastaði? Virðingarleysið gagnvart ábyrgðinni sem felst í því að tróna á toppi píramídavaldsins sem ráðherra er algjört og gengur gjörsamlega fram af landsmönnum flestum. Hefði einhverjum dottið það í hug 10. október síðastliðinn þegar hæstv. ráðherra, Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra, sagði af sér eftir að umboðsmaður Alþingis hafði birt álit sitt á embættisfærslum hans að hann yrði orðinn forsætisráðherra hálfu ári síðar? Við skulum ekki draga fjöður yfir það að umboðsmaður benti skýrlega á að hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson hefði brotið stjórnsýslulög. Er það að axla ábyrgð? Hæstv. Bjarni Benediktsson taldi sig axla ábyrgð gagnvart áliti umboðsmanns með því að færa sig yfir í utanríkisráðuneytið. Nú hálfu ári síðar hefur hann tekið við valdamesta ráðuneyti landsins, hefur skipað sjálfan sig með aðstoð sinna meðreiðarsveina forsætisráðherra þjóðarinnar.

Umboðsmaður Alþingis birti álit sitt nú í upphafi árs á embættisfærslum Svandísar Svavarsdóttur, fráfarandi matvælaráðherra, þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að hún hafi bæði brotið gegn meðalhófs- og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar, sem leiðir af sér brot á 75. gr. sjálfrar stjórnarskrár lýðveldisins Íslands um atvinnufrelsi. Leiða má að því líkur að með reglugerð sinni hafi hún gert ríkissjóð bótaskyldan um milljarða króna. Hún axlar ábyrgð með því að færa sig í enn yfirgripsmeira ráðuneyti og er nú orðin innviðaráðherra.

Það er löngu tímabært að æðstu valdhafar þjóðarinnar átti sig á því að völdum þeirra eru takmörk sett og að lögbrot í starfi séu tekin föstum tökum. Þjóðin er í rauninni í hálfgerðu áfalli núna. Hún skilur ekki hvað er um að vera. Þetta er í fyrsta skipti síðan í kjölfar efnahagshrunsins 2008 sem við sjáum á samfélagsmiðlum myndir af pottum og pönnum. Ég velti því fyrir mér hvort þetta séu skilaboðin sem löggjafinn vill senda út í samfélagið. Í andsvari áðan við hæstv. nýbakaðan forsætisráðherra benti ég á að ef maður væri hér á 100 km hraða á Mözdu og væri tekinn af löggunni þá gæti maður einfaldlega sagst ætla að kaupa sér frekar Toyotu. Þá væri allt í lagi og manni yrði sleppt. Hæstv. ráðherra fór að tala um að því myndi einmitt vera skorður settar og að viðkomandi yrði annaðhvort sektaður eða hugsanlega missa prófið og ég veit ekki hvað og hvað. En mín myndlíking var einmitt um það að þessi viðkomandi einstaklingur sæti við sama borð og ráðherrar þjóðarinnar, þeir þyrftu einfaldlega ekki að axla ábyrgð. Þeir gætu einfaldlega brotið gildandi lög um hámarkshraða í landinu og það margfalt án þess í raun og veru að það hefði nokkrar einustu afleiðingar.

Þegar hæstv. forsætisráðherra talar um það að við eigum að reyna að halda hér pólitískri ró þá get ég algerlega staðhæft að þetta er ekki aðferðin til þess. Það sem ég heyrði frá hæstv. ráðherra var eitthvað svona að þrátt fyrir að við værum átta ólíkir flokkar með þar af leiðandi átta mismunandi sýnir á hlutina, þó að við séum um margt sammála, það örlaði á einhverju eins og að hugsanlega ættum við að reyna að skapa pólitískari ró. Þá velti ég því fyrir mér eðli málsins samkvæmt hvort verið sé að senda okkur þau skilaboð að kannski séu fimm kjörnir stjórnmálaflokkar sem sitja í stjórnarandstöðu þess virði að við þá sé einhvern tímann talað og við fáum þá að taka þátt í því sem við erum að gera hér, að stýra landinu. Það var líka athyglisvert þegar ég var að benda á það hvernig í rauninni er gengið af léttúð um gildandi lög í landinu af sitjandi valdhöfum, af algerri léttúð og án þess að axla ábyrgð, og maður veltir því virkilega fyrir sér hvort það sé einhver hér sem raunverulega treystir þessari ríkisstjórn nema hún sjálf. Hvernig stendur á því að það er ekki hlustað á lýðræðið núna, eina lýðræðið sem er í kjörklefanum, venjulega á fjögurra ára fresti ef allt springur ekki í loft upp þess á milli, þar sem kjósendur geta valið sér valdhafana? Það var athyglisvert að sjá hvernig þessi ríkisstjórn, sem er í rauninni núna eldgamalt vín á sömu gömlu belgjunum, réttlætti það að halda áfram sínum störfum í umboði kjósenda árið 2021 — tók reyndar átta vikur að reyna að hnoða þetta saman. Það voru ekkert allir sem riðu feitum hesti frá þeim kosningum, herra forseti. Sumir unnu sigra á meðan aðrir gerðu það hreinlega alls ekki. Samt sem áður var horft fram hjá því vegna þess að það var svo góður meiri hluti. Og það var greinilega nóg í kosningabaráttu Framsóknar að segja bara: Er ekki bara best að kjósa Framsókn? Þá unnu þeir stóran kosningasigur. Þannig að það þarf ekki alltaf að vera með stór fyrirheit og fögur loforð til þess að fíflast með kjósendur. En í þessu tilviki held ég að verkin muni dæma sig sjálf, verkin sem ríkisstjórnin hefur verið að mögla með síðustu sjö árin. Hún átti sína bestu tíma í Covid þegar hún gat í rauninni fleygt allri ábyrgð á hið svokallaða þríeyki. Það var þá sem henni leið best. Milli þess hafa meira og minna verið hártoganir og það útþynnt sem hingað hefur komið.

Svo ég tali nú um þessi loforð og fögru fyrirheit um að eftir áratugaskeið eigi allt í einu að fara að gera eitthvað í málefnum aldraðra og öryrkja, þá skora ég á alla þingmenn, ekki síst hæstv. ráðherra, að sjá myndina I, Daniel Blake, sem segir til um afleiðingar þess að innleiða starfsgetumat í Bretlandi. Í kjölfarið sviptu um 4.000 einstaklingar sig lífi. I, Daniel Blake, þessi heimildarmynd, segir í raun og veru allt sem segja þarf um þær embættisfærslur sem eru fyrirhugaðar frá hæstv. félagsmálaráðherra, um þá aðför sem hann hefur í huga gagnvart fötluðu fólki á Íslandi í dag.