154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[16:58]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Samfélagið okkar er eitt samvinnuverkefni. Við í Framsókn leggjum mikla áherslu á að fjárfesta í fólki því að fjárfesting í mannauði skilar sér í aukinni hagsæld og velsæld í samfélögum og allar hagrannsóknir benda nákvæmlega til þess. Ríkisstjórn Íslands hefur á undanförnum árum svo sannarlega verið að fjárfesta í fólki og forgangsraðað í þágu aukinnar verðmætasköpun. En af því að formanni Samfylkingarinnar varð títtrætt um árangur þá finnst mér mjög brýnt að við förum aðeins yfir þennan árangur á síðustu árum.

Í fyrsta lagi: Hagvöxturinn á síðustu þremur árum hefur verið 20%. Eins og formaður Samfylkingarinnar þekkir vel, af því að ég veit að hún fylgist vel með, er varla hægt að bera þennan hagvöxt saman við önnur ríki. Danir eru að horfast í augu við neikvæðan hagvöxt. Það mælist enginn hagvöxtur í Evrópu og það er helst litið til Bandaríkjanna eftir einhverjum hagvexti í nánustu framtíð. En kannski vill formaður Samfylkingar bara gleyma því að hér sé hagvöxtur.

Í öðru lagi er atvinnustig mjög hátt og atvinnuleysi nemur aðeins 3,5%. Við í Framsókn teljum að þetta sé eitt það mikilvægasta í samfélaginu okkar, að allir finni sér eitthvað að gera og það sé næg vinna fyrir alla af því að það er nefnilega þannig að ef atvinnulífið er sterkt þá verða til verðmæti og fólk getur fjárfest í sinni framtíð. En kannski vill formaður Samfylkingarinnar gleyma því að hér er fullt atvinnustig. Það eru ekki öll ríki í Evrópu sem geta státað sig af því.

Í þriðja lagi hafa meðallaun verið að hækka og það skiptir gríðarlegu máli. Við erum einnig mjög ánægð með að hér sé búið að gera langtímakjarasamninga. Það voru flestir sem höfðu enga trú á því. Að sjálfsögðu fögnum við því í Framsókn að þetta sé búið að raungerast vegna þess að þá er aukin hagsæld.

Í fjórða lagi langar mig til að benda á það að hrein erlend staða þjóðarbúsins er óvenju sterk eða sem nemur um 40% af landsframleiðslu. Fyrir svona 20 árum var staðan neikvæð um 80%. Við vorum í gríðarlegum erfiðleikum með að halda jákvæðum forða og hann var iðulega tekinn að láni og þetta var ofboðsleg áskorun fyrir þjóðarbúið. Af hverju er þessi viðsnúningur? Það er vegna þess að ferðaþjónustan, sjávarútvegurinn, iðnaðurinn, hugverkin og skapandi greinar eru allar að skila sínu inn í hagkerfið okkar. Gjaldeyrismarkaðurinn er orðinn mun dýpri en hann var og sveiflur minni og ef við hugsum út í það þá er það alveg með ólíkindum að hafa upplifað þessar jarðhræringar án þess að krónan hafi sveiflast mikið. Auðvitað var ákveðið flökt í fyrstu en þetta er besti vitnisburðurinn um það að hér sé góð stjórn á efnahagsmálum. Kannski vill formaður Samfylkingarinnar gleyma því líka.

Mig langaði svona aðeins í lokin að minnast þess að það er verið að halda upp á hálfrar aldar afmæli Grindavíkur og ég vil nota tækifærið og senda íbúum árnaðaróskir og baráttukveðjur. Ég dáist að þrautseigju þeirra og dugnaði og ég er stolt af því að tilheyra samfélagi sem getur tekið utan um þessa áskorun. En ég er algerlega meðvituð um það að við þurfum að gera betur til að tryggja að verðmætasköpun haldist á þessu svæði.

Margir hafa mætt hingað og haft áhyggjur af þessu samstarfi. Ég segi nú bara eins og Einar Benediktsson sagði: Hamingjan er heima fengin. Er ekki bara best að halda þessu áfram og sýna fram á áframhaldandi árangur?