132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Skipun ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneyti.

[15:18]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Þetta mál er miklu stærra en svo að það snúist um atvinnu tveggja einstaklinga. Það snýst um trúverðugleika stjórnsýslunnar, trúverðugleika æðstu embætta ríkisins. Við höfum fleiri dæmi um þetta. Það er vert að rifja upp við þessa umræðu að í síðustu skýrslu umboðsmanns Alþingis vakti hann máls á því að vegna sífelldra umdeilanlegra mannaráðninga, sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur að vísu fyrir, í æðsta dómstól þjóðarinnar gæti það verið til þess fallið að draga úr trúverðugleika Hæstaréttar. Við verðum að hafa það í huga. Þetta er miklu stærra mál en svo að það varði bara tvo einstaklinga.

Félagsmálaráðuneytið hefur í þessu máli orðið uppvíst að því að halda því fram að gert hafi verið upp á milli umsækjenda á grundvelli málefnalegra forsendna. Þegar síðan er kafað ofan í málið kemur í ljós að ekki stendur steinn yfir steini í málflutningi félagsmálaráðuneytisins.

Það er sagt að gert hafi verið upp á milli þessara ágætu einstaklinga á grundvelli menntunar, starfsreynslu og stjórnunarhæfni. Umboðsmaður fer rækilega í gegnum þessa röksemdafærslu ráðuneytisins, með hógværum hætti. Þó segir hann að hún standist ekki. Ég er á því að Framsóknarflokkurinn skuldi þjóðinni svör. Hvaða aðferð beitti fyrrverandi ráðherra við að gera upp á milli þessara einstaklinga? Menn geta ekki sætt sig við það að eitt sé sagt og síðan þegar eftirlitsmaður með stjórnsýslunni fer í gegnum þetta sjái maður — og það sjá allir sem fara í gegnum þessa skýrslu upp á 31 blaðsíðu — að ekki stendur steinn yfir steini í aðferð sjálfs ráðuneytisins. Þetta er með öllu óþolandi. Framsóknarflokkurinn skuldar fólkinu í landinu upplýsingar um hvað í raun og veru hafi verið lagt til grundvallar við ráðningu á einum æðsta embættismanni þjóðarinnar.