132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[15:48]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við getum verið sammála um það, við hv. þm. Kristján L. Möller, að á sumum stöðum á landsbyggðinni virðist hafa orðið nokkur hækkun að því er reikningar sýna. Það þarf að fara ofan í það.

En ég vil minna á að aldrei áður hefur jafnmiklum fjármunum verið varið til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði á landsbyggðinni. Kostnaður til húshitunar er miklu lægri í dag en hann var árið 1991 á föstu verðlagi. Það eru staðreyndir. Það hefur verið pólitískur vilji fyrir því að reyna að jafna húshitunarkostnað landsmanna og rafmagnsreikninga landsmanna.

Hvað varðar síðastnefnda dæmið, ef hv. þingmaður telur að einhver 5 eða 10 eða 20% aðili geti hækkað arðsemiskröfu í krafti minnihlutaeignar sinnar þá kannast ég ekki við að slíkt sé hægt. Að sjálfsögðu ræður meiri hlutinn í þeim efnum. Ég tel það mjög mikilvægt að meirihlutaeign í þessum fyrirtækjum sé á hendi ríkisins.