132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[21:02]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi afhendingaröryggið vísaði ég í reynsluna erlendis frá. Ég vísaði í reynsluna frá Skandinavíu þar sem neytendasamtökum og verkalýðshreyfingu ber saman um að dregið hafi úr afhendingaröryggi við markaðsvæðingu kerfisins. Fyrirtækin lögðu minna upp úr að tryggja sér umframorku, eins og þau höfðu gert áður, vildu taka allan hagnaðinn út og nýta allt til hins ýtrasta, lögðu minna í fjárfestingar en áður og þetta hefði dregið úr afhendingarörygginu. Ég vísaði einnig í nýútkomna álitsgerð matsfyrirtækisins Fitch í Bandaríkjunum þar sem borin eru saman fyrirtæki í almannaeign þar í landi og í einkaeign. Þetta er skýrsla sem kom út 15. febrúar sl. þannig að ég tel mig vera að vísa í reynsluna

Varðandi spurningu um stjórnunarstrúktúr er það skoðun mín að hægt sé að breyta stjórnsýslu og því kerfi sem menn koma sér upp við að stýra stofnunum og fyrirtækjum þótt ekki sé ráðist í að gera þau að hlutafélögum. Ég held að það séu ýmsir möguleikar og kostir til hvað þetta snertir. Í þessari skýrslu Fitch matsfyrirtækisins, eftir því sem ég hef lesið mér til um, kom aftur í ljós að sveigjanleikinn í opinberu fyrirtækjunum er ekki síðri en í hinum þó að þar væri að sönnu verið að vísa í örlítið aðra hluti, þau höfðu sýnt meiri fyrirhyggju en hin, komið sér upp varasjóðum og þar fram eftir götunum.