133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

umferðarlög.

388. mál
[14:44]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég kem hér upp undir þessum dagskrárlið til þess að vekja sérstaka athygli á 1. lið í breytingartillögu samgöngunefndar sem varðar reiðhjól og heimild til þess að hafa rafmótora sem rafknúin reiðhjól eru knúin með, þannig úr garði gerð að þau geti farið í 25 kílómetra hraða á klukkustund en ekki einungis 15 kílómetra hraða eins og er í núgildandi lögum.

Hugmynd af þessu tagi var reifuð á þskj. 310 á yfirstandandi löggjafarþingi í frumvarpi sem ég lagði fram og er eitt af hinum klassísku stjórnarandstöðuþingmannamálum sem komast ekki á dagskrá þingsins.

Mér hefði fundist verulegur bragur að því að ríkisstjórnin hefði nú ákveðið í tengslum við framlagningu og afgreiðslu þessa frumvarps frá samgöngunefnd um breytingar á umferðarlögum að frumvarp mitt yrði samþykkt og auðvitað lít ég svo á að verið sé að gera það. Ég kýs að líta svo á að ég sé að fá hér heilt frumvarp afgreitt frá samgöngunefnd. Ég sé að hv. formaður nefndarinnar nikkar og ég hef heyrt hann nefna nafn mitt í ræðustóli tengt þessu ákvæði.

En mig langar til að nota tækifærið og segja í örfáum orðum frá þeim grundvallaratriðum sem mér finnst að liggi hér að baki. Við höfum gert samanburð á löggjöf Norðurlandanna og hér og við sjáum að það er mjög erfitt að bera löggjöfina saman. Finnar hafa þó farið þá leið sem hér er lögð til þannig að nú erum við að samþykkja finnsku leiðina í reiðhjólamálunum. Þetta byggist á því að framleiðendur vél- og rafknúinna reiðhjóla gefa yfirleitt upp hraðann sem er 20–24 kílómetrar á klukkustund. Mótorarnir eru þannig útbúnir að þeim verður ekki ekið hraðar og hjólum af þessu tagi hefur fjölgað mjög í Evrópu nú á seinni árum.

Það kemur tvennt til. Annars vegar fjölgar þeim sem kjósa að nota hjól sem samgöngutæki í evrópskum borgum og vonandi verður þetta ákvæði einnig til þess að þeim fjölgi hér á landi sem kjósa að nota hjól sem samgöngutæki. Og sömuleiðis má segja að eldra fólk í nágrannalöndum okkar kýs í auknum mæli að nota reiðhjól af þessu tagi sem útivistartæki, t.d. fólk sem hefur kannski ekki nægan líkamsstyrk til að nota hefðbundið fótstigið reiðhjól.

Einnig hafa rafknúin reiðhjól reynst þeim vel sem vegna einhvers konar fötlunar skortir líkamlegan styrk til að nota fótstigið reiðhjól. Þannig að menn sjá að hér er um mikið þarfaþing að ræða, reiðhjól sem getur komist upp í 25 kílómetra á klukkustund.

Síðan má segja að í ljósi aukinnar mengunar frá bifreiðum í þéttbýli sé það mikilvægt að lagaákvæðið hvetji fólk til þess að nýta reiðhjól sem samgöngutæki í auknum mæli. Þá þarf að gæta þess að vél- og rafknúin reiðhjól séu ekki útilokuð og nauðsynlegt að sem flestir geti tekið þátt í þeirri samgöngubyltingu sem þarf að eiga sér stað svo við náum tökum á samdrætti í útstreymi koldíoxíðs frá samgöngum.

Ég lít svo á að lagafrumvarp þetta sé viðleitni í þá átt og vil einungis ítreka það hér að ég fagna því að það skuli nú hafa ratað í heild sinni inn í breytingartillögur samgöngunefndar og trúi því og vona að þess verði ekki langt að bíða að við gerum hér öfluga og metnaðarfulla áætlun um hjólreiðastíga í þéttbýli og þess verði skammt að bíða að öllum stofnbrautum í þéttbýli sem greiddar eru af opinberu fé úr ríkissjóði fylgi hjólreiðastígar.