139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 37/2010 um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn.

235. mál
[23:04]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/2010 um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn um félagarétt

Nefndin hefur fjallað um málið og leitað m.a. álits viðskiptanefndar á tillögunni og er álit þeirrar nefndar birt sem fylgiskjal með þessu nefndaráliti.

Markmið tilskipunarinnar er að draga úr svonefndum stjórnsýslubyrðum í hlutafélögum hvað snertir gerð skýrslna og skjala og birtingu þeirra. Veitt er aukin heimild til að nýta m.a. vef félaga til birtingar á slíkum gögnum. Með breytingunum er ætlunin að auka samkeppnishæfni félaga innan Evrópska efnahagssvæðisins. Breytingarnar hafa áhrif á almennar reglur um félög en einnig ársreikninga og endurskoðun.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og mun fyrirhugað frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um breytingar á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum fjalla um efnið. Fyrirhugað er að leggja frumvarpið fram á yfirstandandi þingi en samkvæmt texta athugasemda við tillöguna er ætlunin að ganga umfram skyldu á grundvelli ákvæða tilskipunarinnar og gera jafnframt breytingar á lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, með síðari breytingum, þar sem eðlilegt þyki að svipaðar reglur gildi um hlutafélög og einkahlutafélög.

Utanríkismálanefnd leggur til að tillagan verði samþykkt.

Birgitta Jónsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, formaður og framsögumaður, Álfheiður Ingadóttir, Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir.