140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:23]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Það sem verið er að gera núna gagnvart starfsfólki og núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir síðan hún tók við völdum er að skapa óvissu og hræðslu á vinnustöðum opinberra starfsmanna. Þetta er þekkt bragð til að ná fólki til fylgis við sig, bæði hvað varðar persónulegar og pólitískar skoðanir, og eins er Evrópusambandsumsóknin inni núna og ríkisstjórnin verður á einhvern hátt að geta aflað sér fylgis við hana og það er til dæmis gert með þessu, að hafa alla óttaslegna, alla undirgefna sér og láta helst alla sem undir hana heyra fá nokkra brauðmola úr lófa sér á hverjum tíma. Já, þetta er andstyggilegt. Þetta er andstyggilegt en svona virkar þetta á mig vegna þess að það eru engin rök komin fram fyrir því hvers vegna taka á þennan lokahnykk á sameiningarnar þegar minna en ár er til kosninga og vonandi bara nokkrir mánuðir.