140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:27]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Jú, allt rétt um það að hér kom inn plagg á milli umræðna þar sem áætlað er að þessi kostnaður sé 125–225 millj. kr. Ég kalla þetta ekki kostnaðaráætlun, þetta eru bara einhverjar tölur sem eru settar niður á blað og inn í þingið. Það gætir mjög mikils ósamræmis í þessum tölum, það eru heilar 100 millj. kr. á milli. Kallast þetta kostnaðaráætlun? Ég verð að segja, frú forseti, að það þætti ekki góð latína á hinum almenna vinnumarkaði ef það stæði til að sameina fyrirtæki að bara einhverjar tölur væru settar fram.

Ég gagnrýndi líka í ræðu minni hvers vegna í ósköpunum fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins var ekki fengin að þessari vinnu og það metið lið fyrir lið hvað þær sameiningar kosta sem lagðar eru til í þessari þingsályktunartillögu. Það kom fram einhvern tímann á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að grunnkostnaðurinn við það eitt að skipta um nafn á ráðuneyti er á bilinu 2,5–3 millj. kr. Í því felst að skipta um bréfsefni, hengja upp nýja stafi á húsið og þess háttar. Svona er hægt að reikna sig upp í tölu sem þetta kostar. Þarna erum við þá þegar komin upp í 10–12 millj. kr. af því að það er verið að leggja til þrjú ný ráðuneyti. Þessi kostnaður er aldrei talinn með og er einhvern veginn dulinn.

Svo er ég alveg sammála hv. þm. Birgi Ármannssyni um að það hefur brostið á flótti úr þessum ráðuneytum við þessar sífelldu breytingar. Þó að atvinnuástand á hinum almenna vinnumarkaði sé ekki gott undir stjórn þessarar ríkisstjórnar hefur á einhvern hátt margt fært fólk horfið út úr ráðuneytunum vegna þess óöryggis sem því er skapað þar. Það má hæglega tala um að það sé spekileki úr ráðuneytunum eins og úr landi.