144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

685. mál
[14:21]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég taldi mig nú hafa farið nokkuð skýrt yfir þetta í yfirlitsræðu minni hér áðan, en það er sjálfsagt mál að reyna að skýra það frekar.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir að þetta mál hefur verið til umræðu hér í þinginu um nokkurt skeið og var þar að ýmsu að hyggja varðandi skilgreiningaratriðin. Ég tel að þar hafi menn náð farsælli og skynsamlegri niðurstöðu sem studd er skýrum rökum. Til að mynda varðandi hönnunarvöruna sem hér er aftur spurt um þá er það rétt sem hv. þingmaður segir að þegar vara verður vinsæl, til dæmis hönnunarvara, getur reynst erfitt að fullnægja eftirspurn á litlu verkstæði þar sem varan kann að hafa orðið til. Þá er þeim möguleika haldið opnum að framleiðandinn, hönnuðurinn, geti látið framleiða þessa íslensku hönnun fyrir sig annars staðar ef þörf er á hráefni sem ekki er komin hefð fyrir hér á landi í slíkri vöru. Þess vegna nefndi ég dæmið um lopapeysurnar, sem er býsna skýrt dæmi vegna þess að þar liggur ljóst fyrir að hefðin felur það í sér að peysurnar eru íslenskar ef þær eru framleiddar úr íslenskri ull. Þar af leiðandi ætti þetta sérákvæði ekki við um lopapeysurnar, það væri ekki hægt að láta framleiða lopapeysur í Kína úr nýsjálenskri ull og merka þær sem íslenskar peysur. Þessi undanþága er einungis veitt ef ekki er hefð fyrir notkun tiltekins innlends hráefnis í vöruna einmitt til þess að hönnuðirnir hafi möguleika á að skapa eitthvað nýtt jafnvel þó að hráefnið sé ekki til staðar í landinu.